Topplið KR gerði góða ferð austur fyrir fjalla í gærkvöld og hefndu ófara kvennaliðs KR frá því á miðvikudaginn og unnu sannfærandi sigur á Hamarsmönnum í Iceland Express deild karla. Lokatölur voru 116-88 KR í vil. Gestirnir mættu tilbúnir í þennan leik frá fyrstu mínútu og spiluðu hörku pressuvörn sem heimamönnum gekk illa að ráða við.
KR náði strax forystunni, en náðu þó ekki að hrista heimamenn af sér og forystan þeirra var 1-9 stig allan fyrsta leikhlutann. Varnarleikurinn gekk illla hjá heimamönnum og eftir tæpar 4 mínútur í fyrsta fjórðungnum voru gestirnir komnir með skotrétt og áður en fjórðungurinn var hálfnaður voru Ragnar, Svavar Páll og Oddur Ólafs allir komnir með tvær villur og greinilegt að heimamenn myndu brotlenda fljótt og illa ef svona héldi áfram. Staðan var 22-30 eftir fyrsta fjórðunginn og þá var komið að Ágústi Björgvinssyni að hrista eitthvað fram úr jakkaerminni en Hamarsmenn skoruðu tíu fyrstu stig annars leikhluta og komust yfir í fyrsta sinn í leiknum 32-30 og gáfu það í skyn að þeir ætluðu að hætta að sýna Íslandsmeisturunum þá virðingu þeim hafði verið sýnd allan fyrsta leikhlutann.
KR-ingar tóku þá leikhlé og Jón Orri tróð síðan glæsilega í næstu sókn og jafnaði 32-32 og gestirnir litu aldrei til baka eftir það og tóku 18-4 áhlaup á meðan heimamenn fylgdust með Íslandsmeisturnunum að verki, nánast eins og áhorfendur og staðan skyndilega orðin 36-50 þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum en staðan 46-61 í hálfleik og gestirnir úr Vesturbænum í ökumannssætinnu og voru farnir að leika listir sínar við hvert tækifæri, og má nefna alley-oop troðslu hjá Morgan Lewis eftir skemtilega sendingu frá Pavel sem stjórnaði sínum mönnum eins og sannar herforingi og var á köflum eins og rándýr skemtikraftur í leik sínum.
Í síðari hálfleiknum héldu gestirnir fengnum hlut og munurinn alltaf 15-20 stig, en heimamenn meiga þó eiga það að þeir gáfust aldrei upp og héldu áfram að berjast þangað til leikklukkan rann út eftir fjórða leikhlutann, þrátt fyrir að við ofurefli væri að etja. Íslandsmeistararnir héldu áfram að skemmta sér og áhorfendum með skemtilegum sendingum og troðslum, en þó er líklegt að meirihluti áhorfenda hafi skemmt sér best þegar Fannari mistókst að troða undir lok þriðja leikhluta, en Fannar gat þó brosað út í annað, vitandi að þeir væru á þeim tímapunkti 21 stiga forystu og sigurinn ekki í hættu. Fyrstu 2-3 mínúturnar í fjórða leikhlutans voru þó hálfgert stílbrot á annars ágætri skemtun þar sem bæði lið skiptust á að tapa boltanum og skjóta lélegum skotum, en sá kafli leið hjá og áfram hélt sóknarleikurinn. Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum var staðan 81-95, en þá ákváðu gestirnir að spýta í lófana og laga hjá stér stigatöluna í deildinni og skoruðu 21 stig á móti 7 stigum Hamars og endaði leikurinn 88-116.
Í þessum leik sýndu KR-ingar hvað þeir eru með rosalega öflugt lið og breiðan hóp, en í heildina skoraði bekkurinn hjá KR 37 stig á móti 15 stigum hjá heimamönnum, en mestu munar þarna um Morgan Lewis sem byrjaði á bekknum en skilaði 21 punkti þegar upp var staðið á tæplega 22 mínútum.
Brynjar Þór Björnsson kunni ágætlega við sig fyrir utan þriggjastigalínuna í Hveragerði og skellti niður níu kvikindum í 18 tilraunum og var í heildina með 42 stig auk þess sem hann gaf 7 stoðsendingar. Næstur í stigaskori hjá KR var Morgan Lewis en hann setti 21 stig eins og áður sagði, og hittnin hreint fáránleg 9/9 tveggja stiga en 0/2 fyrir utan þriggja. Þó að Brynjar hafi átt stórgóðan leik, þá var Pavel Ermolinskij sennilega maður leiksins, en hann náði þrefaldri tvennu með 17 stig, 14 fráköst, og hvorki fleiri né færri en 16 stoðsendingar, auk þess sem hann stal 5 boltum.
Hjá heimamönnum var Marvin með 38 stig og 9 fráköst en Andre Dabney kom næstur með 21 stig og 9 stoðsendingar en oft á tíðum var sóknarleikurinn ekki að ganga upp hjá honum og spilaði það inní hvað meðalhæðin hjá KR er tölvert nær 2 metrum heldur en Andre sjálfur er.
Umfjöllun: Sævar Logi Ólafsson



