Njarðvíkingar eru bikarmeistarar í 10. flokki karla eftir 74-56 sigur á KR í úrslitaviðureign liðanna í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Heimamenn í grænu höfðu frumkvæðið allan leikinn en KR-ingar virtust til alls líklegir áður en Birgir Snorrason setti upp þriggja stiga sýningu í fjórða leikhluta. Það var svo Valur Orri Valsson sem valinn var besti maður leiksins með 17 stig, 12 stoðsendingar, 8 fráköst og 5 fiskaðar villur.
Njarðvíkingar byrjuðu mun betur þar sem Valur Orri Valsson kom heimamönnum í 7-2 með þriggja stiga körfu og Elvar Friðriksson bætti um betur með einni til viðbótar og staðan 10-2 Njarðvík eftir fjögurra mínútna leik. KR-ingar bitu þó verulega frá sér og komust yfir 12-16 þar sem þeir tóku 2-14 áhlaup. Njarðvíkingar áttu þó lokaorðið þar sem Maciej Baginski náði sóknarfrákasti og skoraði um leið og leiktíminn rann út, Baginski fékk villu að auki og setti niður vítið og heimamenn leiddu 18-16 eftir fyrsta leikhluta.
Í upphafi annars leikhluta skiptu Njarðvíkingar í svæðisvörn sem gekk vel og hélt KR fjarri körfunni en KR-ingar héldu sig áfram í svæðisvörn sem Njarðvíkingar fundu oft stórar glufur á. Oddur Kristjánsson átti ljómandi fyrri hálfleik hjá KR og með einum þrist minnkaði hann muninn í 26-25.
Njarðvíkingar höfðu þó frumkvæðið og Maciej Baginski kom sínum mönnum í 34-27 með þriggja stiga körfu. Eftir þetta juku heimamenn í muninn og leiddu 40-29 í hálfleik þar sem Maciej Baginski var kominn með 16 stig en Oddur Kristjánsson 12 stig í liði KR.
Vesturbæingar komu grimmir inn í síðari hálfleik og höfðu nú látið af svæðisvörninni og beittu maður á mann vörn sem virkaði vel. Martin Hermannsson minnkaði muninn í 45-44 með þriggja stiga körfu en Njarðvíkingar áttu lokaorðið í þriðja leikhluta og leiddu 47-44 fyrir fjórða leikhluta þar sem KR vann þriðja leikhluta 7-15.
Oddur Kristjánsson smellti niður þrist í upphafi þriðja leikhluta og minnkaði muninn í 49-47 en þá sagði Birgir Snorrason hingað og ekki lengra og mætti með þrjá þrista á skömmum tíma og staðan skyndilega orðin 63-49 þegar þrjár og hálf mínúta voru til leiksloka. Þetta þriggjastigaæði á Birgi slökkti endanlega í KR-ingum og Njarðvíkingar höfðu að lokum 74-56 sigur í leiknum.
Valur Orri stjórnaði vel í liði Njarðvíkur og þá sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem hann galdraði Njarðvíkinga oft ansi glæsilega fram hjá svæðisvörn KR. Valur var með 17 stig, 12 stoðsendingar, 8 fráköst og 5 fiskaðar villur í leiknum. Maciej Baginski átti einnig ljómandi dag með 22 stig og 9 fráköst, Birgir Snorrason gerði 16 stig og tók 8 fráköst og Dagur Sturluson gerði 12 stig og tók 5 fráköst.
Oddur Kristjánsson gerði 20 stig fyrir KR í leiknum og Martin Hermannsson bætti við 15 og 6 fráköstum en Matthías Sigurðarson var í strangri gæslu en mætti þó með 9 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst.
Dómarar leiksins: Davíð Hreiðarsson og Jón Þór Eyþórsson




