Haukar eru bikarmeistarar í Stúlknaflokki eftir æsispennandi úrslitaviðureign gegn Keflavík í bikarúrslitum yngri flokka. Úrslitin réðust ekki fyrr en í blálokin en Keflvíkingar áttu fínt skot til að koma leiknum í framlengingu en það geigaði og Haukar fögnuðu sigrinum.
Haukar gerðu fyrstu þrjú stig leikins en þá vöknuðu Keflavíkingar og gerðu næstu sex. Dagbjört Samúelsdóttir splæsti þá í þrist fyrir Hauka og staðan 6-6. Keflvíkingar báðu svo um leikhlé eftir að Auður Ólafsdóttir kom Haukum í 13-8 með þriggja stiga körfu. Vörn Hauka var hin myndarlegasta í upphafsleikhlutanum þar sem Haukar þvinguðu Keflavík í erfiðar sendingar en Keflavík var með 13 tapaða bolta í fyrri hálfleik. Haukar leiddu svo 25-18 eftir fyrsta leikhluta.

Sara Hinriksdóttir kom með góða baráttu inn í Keflavíkurliðið af bekknum en var aðeins of áköf og fékk skjótt 3 villur. Soffía Skúladóttir var einnig spræk hjá Keflavík en eins og Sara kom hún af bekknum og smellti niður þrist og minnkaði muninn í 29-27. Nær komust Keflvíkingar ekki því Haukar, með Dagbjörtu Samúelsdóttur, í broddi fylkingar leiddu 45-34 í hálfleik þar sem Dagbjört var komin með 14 stig en Soffía Skúladóttir 7 í liði Keflavíkur. Bæði lið voru þó að leika vel á sínum mönnum en níu leikmenn í báðum liðum voru komnir á blað í fyrri hálfleik.
Í þriðja leikhluta hertu Keflvíkingar róðurinn og náðu hægt og bítandi að saxa á forskot Hauka. Telma Ásgeirsdóttir náði að minnka muninn í 2 stig, 56-54 þegar hún skoraði og fékk villu að auki. Skömmu síðar fékk Lovísa Falsdóttir slæma byltu í liði Keflavíkur og var borin af velli meidd á hné. Haukar leiddu þó áfram og höfðu eins stigs forystu 56-55 fyrir lokasprettinn.
Eins og svo oft áður í leiknum tókst Haukum að slíta sig frá Keflavík í upphafi síðasta leikhlutans og komust í 63-58 en ekki leið á löngu uns Keflvíkingar voru farnir að narta í hæla Hauka að nýju. Dagbjört Samúelsdóttir gerði svo mikilvæga körfu fyrir Hauka þegar þegar 1.15mín. voru til leiksloka og breytti hún þá stöðunni í 69-65.
Þegar 29 sekúndur voru til leiksloka gerðist athyglisverður hlutur. Keflavík hélt í sókn en leikklukkan fór ekki í gang, Keflavík setti niður þriggja stiga körfu sem var dæmd gild og staðan orðin 69-68 Haukum í vil og leiktíminn áfram sá sami eftir þessa um það bil 10 sekúnda sókn hjá Keflavík. Keflavík náði því að gera 3 stig án þess að nokkur tími liði.
Áfram hélt þó leikurinn og spennan í algleymingi. Haukar misstu boltann útaf í næstu sókn og 24 sekúndur eftir. Keflavík átti kost á því að komast yfir í fyrsta sinn í langan tíma í leiknum en Keflvíkingar grýttu boltanum út af og brutu svo strax á Auði Ólafsdóttur sem hélt á línuna. Auður stóðst prófið og setti niður bæði vítin en vítanýting Hauka í leiknum var ekki góð, eða aðeins tæp 53%. Staðan orðin 71-68 og 12 sekúndur til leiksloka. Keflvíkingar reyndu fínt þriggja stiga skot til að knýja fram framlengingu en það geigaði og Haukar fögnuðu sigri.
Dagbjört Samúelsdóttir var valin besti maður leiksins úr sigurliði Hauka með 20 stig, 10 fráköst og 6 fiskaðar villur. Atkvæðamest í liði Keflavíkur var Telma Ásgeirsdóttir með 14 stig.
Dómarar leiksins: Lárus Ingi Magnússon og Valgeir Magnússon




