spot_img
HomeFréttirSnæfell/Skallagrímur bikarmeistari í drengjaflokki

Snæfell/Skallagrímur bikarmeistari í drengjaflokki

 
Snæfell/Skallagrímur er bikarmeistari í drengjaflokki eftir magnaðan 80-78 sigur á Hamri/Þór í bikarúrslitum í Ljónagryfjunni. Egill Egilsson fór á kostum í liði Snæfells/Skallagríms með 41 stig og var réttilega útnefndur maður leiksins. Hamar/Þór átti þó síðasta skot leiksins og það var þriggja stiga skot sem hefði mögulega getað stolið sigrinum en skotið geigaði og félögin Snæfell og Skallagrímur fögnuðu sínum fyrsta bikartitli í yngri flokkum karla.
Hamar/Þór hóf leikinn í svæðisvörn og það kunni Egill Egilsson að meta og gerði 5 fyrstu stig Snæfells/Skallagríms sem leiddu snemma 6-9. Ragnar Nathanaelsson fékk snemma tvær villur í liði Hamars/Þórs og hélt á bekkinn og það nýtti Snæfell/Skallagrímur sér vel og leiddu 12-25 eftir fyrsta leikhluta þar sem Egill var kominn með 13 stig en vörn Snæfells/Skallagríms var þéttofin fyrstu 10 mínúturnar.

 
Hamar/Þór beit strax frá sér í öðrum leikhluta og minnkaði muninn í 21-27 og síðar í 23-29 en þá tók Ingi Þór Steinþórsson lékhlé fyrir sína menn að vestan. Í öðrum leikhluta virtust ákveðnir þættir í leik Hamars/Þórs vera að ganga upp sem ekki skiluðu sér í fyrsta leikhluta. Sunnlendingar unnu fleiri bolta úr pressunum sínum og áttu betra með að þvinga Snæfell/Skallagrím í þröngar stöður. Þorsteinn Ragnarsson jafnaði svo metin í 33-33 með þrist og síðar kom hann þeim yfir 36-35 er hann prjónaði sig í gegn vörn Snæfells/Skallagrím.
 
Það voru svo liðsmenn Hamars/Þórs sem áttu lokaorðið í fyrri hálfleik er þeir gerðu 2 stig af vítalínunni og staðan 41-40 í leikhléi þar Þorsteinn og Hjalti voru með 10 stig í liði Hamars/Þórs en Egill var kominn með 26 stig í liði Snæfells/Skallagríms.
 
Liðsmenn Ágústar Björgvinssonar voru sprækari í upphafi síðari hálfleiks rétt eins og undir lok þess fyrri. Hamar/Þór komst í 54-47 en skömmu síðar fékk Hjalti Þorsteinsson slæma byltu í liði Hamars/Þórs og kenndi sér eymsla í baki en hélt áfram. Kristján Andrésson hélt Snæfell/Skallagrím með vel tímasettum þriggja stiga körfum og ein slík kom Snæfell/Skallagrím á ný yfir í leiknum 56-57. Oddur Ólafsson svaraði að bragði fyrir Hamar/Þór með tveimur þristum og að loknum þriðja leikhluta leiddu Sunnlendingar 68-61.
 
Snæfell/Skallagrímur gerði 5 fyrstu stigin í síðari hálfleik og staðan 68-66 en eftir það varð hver karfa gulls ígildi. Kristján var mættur aftur með risaþrist fyrir Snæfell/Skallagrím og jók muninn í 72-75 þegar tæpar 3 mínútur voru til leiksloka.
 
Enn eina ferðina mætti Kristján með stórkörfu þegar hann kom Snæfell/Skallagrím í 74-78 og 57 sekúndur til leiksloka. Hjalti Þorsteinsson minnkaði muninn í 76-78 og þegar 33 sekúndur voru eftir fékk Snæfell/Skallagrímur dæmt á sig skref eftir sóknarfrákast og Hamar/Þór hélt í sókn. Vesturlandspiltar komust þó inn í sendingu í næstu sókn Hamars/Þórs og slíkt hið sama gerði Oddur Ólafsson fyrir Hamar/Þór þegar 10 sekúndur voru til leiksloka en þá brunaði Oddur upp völlinn og jafnaði metin í 78-78.
 
Landsliðsmaðurinn Sigurður Þórarinsson reyndist svo hetja Snæfells/Skallagríms er hann sótti að körfunni, skoraði og fékk villu að auki. Hann brenndi reyndar af vítinu en þetta voru fyrstu og einu stig Sigurðar í leiknum. Hamar/Þór náði frákastinu og brunaði upp völlinn og tóku þriggja stiga skot í von um að stela sigrinum en það geigaði og Snæfell/Skallagrímur fagnaði sigri eftir spennuleik. Þetta var jafnfram fyrsti bikartitill félaganna, Snæfells og Skallagríms, í yngri flokkum drengja.
 
Egill Egilsson var svo útnefndur maður leiksins en hann sallaði niður 41 stigi og tók 9 fráköst í liði Snæfells/Skallagríms. Kristján Andrésson átti einnig skínandi dag með 17 stig og þriggja stiga körfur sem héldu Snæfell/Skallagrím við efnið.
 
Í liði Hamars/Þórs var Hjalti Þorsteinsson með 22 stig og 8 fráköst en honum næstur kom Oddur Ólafsson með 18 stig.

Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Jón Guðmundsson.

 
 
Ljósmynd/ Efsta mynd: Liðsmenn Snæfells/Skallagríms voru vígalegir allir með svipuð ,,tattó“ sem voru aðeins farin að renna til í leikslok.
 
Fréttir
- Auglýsing -