KR er bikarmeistari í 9. flokki karla eftir æsispennandi sigur á Hamri/Þór í úrslitaviðureign liðanna í Ljónagryfjunni. Úrslitin réðust ekki fyrr en í blálokin þar sem lokaskot Hamars/Þórs geigaði og KR fagnaði sigri. Hugi Hólm Guðbjörnsson var útnefndur maður leiksins með 14 stig, 16 fráköst og 3 varin skot.
KR-ingar byrjuðu betur og komust í 7-2 en snemma fékk Oddur Kristjánsson tvær villur í liði KR og varð að passa sig. KR-ingar voru reyndar ósáttir í byrjun leiks við dómgæsluna en þeir voru fullákafir í vörninni. Hamar/Þór ætlaði ekki að láta KR stinga sig af og náðu forystunni aftur í sínar hendur og komust í 17-10 eftir fimm stig í röð frá Þórarni Friðrikssyni. Þegar hér var komið við sögu sögðu KR-ingar hingað og ekki lengra. KR gerði 4 síðustu stigin í 1. leikhluta þar sem Hamar/Þór leiddi 17-14 og svo gerði KR 13 fyrstu stigin í öðrum leikhluta og voru skyndilega komnir í 17-27!

Svavar Jóhannsson batt enda á 17-0 áhlaup KR með tveimur stigum fyrir Hamar/Þór á vítalínunni. Það voru þó KR-ingar sem leiddu í hálfleik 27-40 þar sem Oddur Kristjánsson var kominn með 9 stig í liði KR en Þorsteinn Eyfjörð átti flotta innkomu af KR bekknum og gerði 5 stig ásamt því að taka 10 fráköst á 12 mínútum. Hjá Hamar/Þór var Erlendur Ágúst Stefánsson með 14 stig í hálfleik.
Ef það var eitthvað sem einnkendi viðureign KR og Hamars/Þórs í dag þá voru það sveiflur því Sunnlendingar komu dýrvitlausir inn í þriðja leikhluta og svöruðu fullum hálsi 17-0 áhlaupi KR sem átti sér stað í fyrri hálfleik. Hamar/Þór opnaði þriðja leikhluta með 14-0 áhlaupi og breyttu stöðunni í 41-40. Í þessu æði Hamars/Þór fékk Svavar Jóhannsson sína fimmtu villu og var ekki par sáttur við sitt hlutskipti en liðin héldu þó jöfn í stöðunni 50-50 inn í fjórða og síðasta leikhluta.
KR-ingar byrjuðu betur í fjórða leikhluta en Erlendur Ágúst Stefánsson náði að jafna metin í 60-60 þegar hann stal boltanum fyrir Hamar/Þór og skoraði af harðfylgi. Eftir þetta voru aðeins fimm stig til viðbótar skoruð í leiknum og hvert þeirra af dýrari gerðinni.
Þegar 35 sekúndur voru til leiksloka leiddi Hamar/Þór 62-61 en KR-ingar stálu boltanum og skoruðu og komust í 62-63. Þá tók Hamar/Þór leikhlé en KR-ingar sem, ótrúlegt en satt, höfðu leikið villulaust í rúmlega sjö og hálfa mínútu vissu sínu viti og brutu í tvígang á Hamar/Þór sem ávallt þurftu að fara aftur í innkast þar sem enginn var skotrétturinn. Loks þegar 2 sekúndur voru til leiksloka áttu Hamar/Þór innkast, þeir komu boltanum í leik en lokaskotið var erfitt og geigaði og KR fagnaði sigri.
Hugi Hólm Guðbjörnsson var valinn besti maður leiksins en hann gerði 14 stig fyrir KR og tók 16 fráköst þar af 12 sóknarfráköst og varði 3 skot. Stigahæstur í liði KR var Oddur Kristjánsson með 18 stig en hjá Hamri/Þór var Erlendur Ágúst Stefánsson með 21 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendinga rog honum næstur kom Halldór Garðar Hermannsson með 18 stig. Sighvatur Bjarkason barðist einnig vel fyrir Sunnlendinga með 7 stig og 11 fráköst.
Dómarar leiksins: Georg Andersen og Aðalsteinn Hrafnkelsson




