Keflavík er bikarmeistari í 10. flokki kvenna eftir öruggan 34-53 sigur á Haukum í úrslitaviðureign liðanna í Ljónagryfjunni. Keflvíkingar tóku frumkvæðið snemma í leiknum og uppskáru öruggan sigur. Lovísa Falsdóttir var útnefnd maður leiksins en hún gerði 16 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar í leiknum ásamt því að leika fantagóða vörn.
Keflvíkingar voru ekki lengi að stimpla sig inn í leikinn og leiddu snöggtum 8-3. Haukar áttu bágt gegn pressuvörn Keflavíkur og voru því undir 18-6 að loknum fyrsta leikhluta.
Hafnfirðingar voru þó öllu beittari í öðrum leikhluta þar sem Margrét Rósa Hálfdánardóttir leiddi Haukana áfram. Haukar gerðu fyrstu sex stig leikhlutans en honum lauk í stöðunni í 12-25 Keflavík í vil og því fór leikhlutinn 6-7 fyrir Keflavík en þessi lokaleikhluti fyrir hálfleik einkenndist af dræmri skotnýtingu og mistökum á báða bóga.
Margrét Rósa var komin með 7 stig í hálfleik í liði Hauka en Lovísa Falsdóttir með 8 stig í liði Keflavíkur. Óttast var að Lovísa hefði meitt sig illa í gær er hún var borin af velli eftir slæmt högg á öðru hné en hún var mætt til leiks í dag, spræk og útnefnd besti maður leiksins.
Keflvíkingar voru áfram ákveðnari aðilinn í upphafi síðari hálfleiks en höfðu látið af pressuvörninni. Lovísa Björt Henningsdóttir fór hægt og bítandi að láta finna fyrir sér í Haukaliðinu en hún gerði 9 stig í dag og tók 6 fráköst. Þrátt fyrir að Lovísa og Margrét Rósa væru að bíta frá sér í liði Hauka þá var Keflavíkurliðið einfaldlega of þétt, of gott, til að láta forystuna af hendi og því leiddu Keflvíkingar 40-28 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Framan af fjórða leikhluta náðu Haukar ekki upp nægilegri stemmningu til að ógna forystu Keflavíkur að ráði og svo fór að Keflavík vann stærsta bikarsigur helgarinnar til þessa er þær skelltu Haukum 53-34.
Eins og fyrr segir var Lovísa Falsdóttir besti maður leiksins með 16 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar en Ingunn Kristínardóttir kom henni næst með 13 stig og 8 fráköst en Ingunn meiddist á ökkla í leiknum og varð frá að víkja. Hjá Haukum var Margrét Rósa í sérflokki með 18 stig, 10 fráköst, 4 stoðsendingar og 7 fiskaðar villur. Lovísa Björt Henningsdóttir sýndi einnig góða takta en þar er efnilegur leikmaður á ferðinni og þegar hún vildi þá hrundu Keflvíkingar utan af henni í teignum. Lovísa gerði 9 stig og tók 6 fráköst í leiknum.
Dómarar leiksins: Georg Andersen og Aðalsteinn Hrafnkelsson




