spot_img
HomeFréttirNjarðvík bikarmeistari í 11. flokki karla

Njarðvík bikarmeistari í 11. flokki karla

 
Njarðvíkingar eru bikarmeistarar í 11. flokki karla eftir sigur á KR í úrslitaviðureign liðanna í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Lengi vel stefndi í stórsigur Njarðvíkinga en KR-ingar bitu frá sér á lokasprettinum svo lokatölur voru 79-71 Njarðvíkingum í vil. Oddur Birnir Pétursson var valinn besti maður leiksins með 16 stig og 10 fráköst en Oddur slökkti algerlega í nafna sínum Kristjánssyni í liði KR sem er gríðarleg skytta en sá fann lítið annað en skuggann af Oddi Péturssyni í dag.
Leikurinn hófst fjörlega þar sem bæði lið keyrðu vel upp völlinn, jafnt var á öllum tölum í upphafi, 3-3, 5-5 og 9-9 þar sem þeir Matthías Sigurðarson, KR, og Valur Orri Valsson, Njarðvík mættu ákveðnir til leiks. Birgir Snorrason kom sprækur af Njarðvíkurbekknum og hélt uppteknum hætti frá því í gær er hann setti niður þrist í fyrstu snertingu og Njarðvík yfir 14-12 en það voru KR-ingar sem leiddu 16-17 eftir fyrsta leikhluta þó svo að Elvar Friðriksson hefði átt lokaorðið fyrir Njarðvík í leikhlutanum með stökkskoti í teig KR-inga.
 
 
Í öðrum leikhluta lögðu Njarðvíkingar grunninn að sigri sínum í leiknum. Grænir skiptu yfir í svæðisvörn sem strax frá fyrstu mínútu lagðist illa í KR-inga og það sem eftir lifði leiks voru þær sárafáar KR sóknir þar sem hægt var að hrósa þeim fyrir að leysa vel úr svæði heimamanna.
 
Um leið og Njarðvík fór í svæði tók KR leikhlé og eftir það komu 6 KR-ingar inn á völlinn og uppskáru tæknivíti fyrir vikið og Njarðvíkingar héldu bara áfram að auka muninn. Kristófer Acox minnkaði muninn í 22-19 hjá KR en það voru fyrstu stig KR í öðrum leikhluta eftir þriggja mínútna leik. Valur Orri Valsson kom aftur inn í Njarðvíkurliðið eftir smávægilega hvíld og samstundis varð sóknarleikur Njarðvíkinga beittari.
 
Oddur Birnir Pétursson setti góðan þrist fyrir Njarðvíkinga og breytti stöðunni í 35-21 en KR átti lokaorðið í leikhlutanum og liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 39-25 Njarðvík í vil. Valur Orri Valsson var kominn með 11 stig hjá Njarðvík í hálfleik og líka Matthías Sigurðarson í liði KR.
 
Martin Hermannsson klóraði í bakkann fyrir KR í upphafi síðari hálfleiks með þriggja stiga körfu og staðan 43-30 Njarðvík í vil en heimamenn voru áfram mun sterkari og lokuðu t.d. vel á skyttuna Odd Kristjánsson sem skoraði ekki sín fyrstu stig fyrr en í fjórða leikhluta.
 
Dagur Sturluson barðist vel í liði Njarðvíkur sem og Oddur Pétursson og að loknum þriðja leikhluta var staðan 61-44 Njarðvíkingum í vil og aðeins spurning um hve stór sigur Njarðvíkinga yrði að lokum, eða hvað?
 
Heimamenn í grænu voru greinilega komnir með hugann við sigurlauninn því í fjórða leikhluta hertu KR-ingar róðurinn og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Þegar rétt rúmar tvær mínútur voru til leiksloka hafði KR minnkað muninn í 9 stig, 74-65 og áfram héldu þeir að saxa niður forystuna
 
Þrátt fyrir hetjulega tilraun Vesturbæinga til þess að klóra sig aftur upp að hlið Njarðvíkinga þá var munurinn á endanum of mikill og KR-ingar hefðu ekki þurft nema nokkrar mínútur til viðbótar og þá er aldrei að vita hvað hefði getað gerst.
 
Lokatölur urðu svo 79-71 Njarðvíkingum í vil í leik þar sem allt benti til stórsigurs grænna. Oddur Birnir Pétursson var maður leiksins í liði Njarðvíkur með 16 stig og 10 fráköst og glimrandi varnarleik. Valur Orri Valsson var stigahæstur með 22 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar og þá áttu þeir góðan dag þeir Maciej Baginski og Sigurður Dagur Sturluson. Baginski með 14 stig og 11 fráköst og Dagur með 14 stig og 3 fráköst.
 
Hjá KR voru þeir stigahæstir Kristófer Acox og Matthías Sigurðarson, báðir með 22 stig en Acox var einnig með 22 fráköst, skrímslatvenna þar á ferðinni en hann var einnig með 6 stolna bolta. Martin Hermannsson bætti svo við 11 stigum hjá KR og tók 10 fráköst.
 
Dómarar leiksins: Jón Guðmundsson og Davíð Hreiðarsson
 
Fréttir
- Auglýsing -