Samkvæmt upplýsingum Karfan.is voru félögin fleiri en teljandi er á fingrum annarrar handar sem sóttu um að halda bikarúrslitakeppnina hjá yngri flokkum þetta árið og urðu Njarðvíkingar fyrir valinu. Umgjörð mótsins var öll hin besta og er óhætt að segja að mikil vinna liggji á bak við svona helgi. Reyndar hafa félögin staðið sig með miklum sóma undanfarið við bikarúrslitahelgi yngri flokka og ekki þarf að fara langt aftur í tímann til að muna að félögin veigruðu sér við því að standa að svona helgi. Þessi veruleiki sem við búum við í dag er mikill áfangasigur fyrir íslenskan körfuknattleik enda skiptir sterk umgjörð utan um grasrótina öllu máli!



