Allen Iverson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Philadelphia 76ers, en leikmaðurinn og félagið ákváðu að leiðir myndu nú skilja á ný eftir þriggja mánaða dvöl hans.
Iverson, sem kom sér út úr húsi hjá Memphis Grizzlies í upphafi leiktíðar, sneri aftur til Philadelphia þar sem hann lék fyrstu tíu ár ferils síns, en eftir að hafa verið frá liðinu síðan 20. febrúar vegna veikinda dóttur sinnar var ákveðið að láta gott heita þar sem fjarveran var ekki að þjóna tilgangi liðsins.
Iverson, sem jafnan hefur rekist illa í hópi var til fyrirmyndar á meðan dvöl hans stóð þar sem hann lagði áherslu á að dreifa spili og reyndi frekar að laga sig að leik Sixers, en hitt.



