Það voru Hamarsstúlkur sem komu sáu og sigruðu í fyrsta skipti í Keflavíkinni frá landnámi á Íslandi, í kvöld með 101:85 stórsigri á heimastúlkum. Varnarleikur gestanna að þessu sinni var frábær og áttu Keflavík í bölvuðu basli með sóknarleik sinn. Varnarleikurinn þeirra var svo oftar en ekki á hælunum eins og stigaskor gestanna gefur til kynna.
Það virtust vera gestirnir sem voru ákveðnari í upphafi leiks og voru strax komnar í forystu. Það voru þó ekki nema 4 stig sem skildu liðin eftir fyrsta fjórðung og allt virtist stefna í hörku leik milli þessara tveggja liða. Um miðbik annars leikhluta tóku svo Hamarsstúlkur skrefið áfram og voru komnar í 10 stiga forystu. Lítið virtist ganga hjá Keflavík og var það Kristi Smith sem hélt liðinu á floti með sumum hverjum ótrúlegum körfum. Óvant því sem verið hefur (í það minnsta fyrir bikarúrslitaleikinn) hjá Keflavík þá var varnarleikur þeirra gersamlega út á þekju og strax í fyrri hálfleik höfðu þær fengið á sig 49 stig.
Það voru 7 stig sem skildu liðin í hálfleik eftir að Sóley Guðgeirsdóttir hafði sett niður þrist rétt undir lok fyrir hálfleiks. Í þriðja leikhluta náðu Keflavík að minnka muninn niður í 4 stig og virtust vera á góðri leið með að komast betur inní leikinn og jafnvel komast í "bílstjórasætið". En gestirnir leiddar af Juliu Demirer stóðu af sér þetta áhlaup. Julia virtist getað skorað af vild og ef ekki þá náði hún bara sóknarfrákasti og skilaði svo boltanum ofaní. Julia endaði leikinn með 22 stig og 16 fráköst, eða hin margum rædda "trölla tvenna"
Lítið virtist ætla að ganga upp hjá heimastúlkum og gerðu þær sig seka um hver mistökin á fætur öðrum. Jafnvel hinar auðveldustu sendingar rötuðu einungis beinustu leið í dýrustu sætinn í stúkunni. Keflavík lauk leik með 16 töpuðum boltum, margir hverjir grátlega auðveldar sendingar.
Hamarsstúlkur voru að þessu sinni einfaldlega beittari í sínum aðgerðum og sigruðu nokkuð verðskuldað. Julia Demirer var maður leiksins með sín 22 stig og 16 fráköst. Næst henni hjá Hamar var Sigrún S Ámundadóttir með flottann leik einnig, 20 stig og 13 fráköst. Hjá Keflavík var Kristi Smith langbest með 27 stig en betri frammistaða hefur sést til allra annara leikmanna og þá sérstaklega varnarmegin á vellinum.



