Snæfell tryggði sér í kvöld í fyrsta sinn í sögu félagsins sæti í úrslitakeppninni í úrvalsdeild kvenna. Njarðvík lá stórt gegn Haukum og Snæfell skellti Val 58-83 í Vodafonehöllinni og jafnaði Njarðvík þar að stigum. Njarðvík situr eftir þar sem Snæfell hefur betur innbyrðis. Sherell Hobbs hrökk í gang í seinni hálfleik í kvöld og var með 30 stig í liði Hólmara sem fögnuðu vel í leikslok þessum merka áfanga í sögu síns félags.
Gestirnir úr Stykkishólmi höfðu frumkvæðið í upphafi leiks og léku fína vörn. Berglind Ingvarsdóttir náði þó forystunni fyrir Val með þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 15-14 en Hólmarar gerðu fjögur síðustu stig leikhlutans og leiddu því 14-18.
Valskonur opnuðu annan leikhluta með fjórum stigum í röð og komust yfir 19-18 og á sama tíma var Sherell Hobbs að taka töluvert frá Snæfell með erfiðum skotum sem vildu ekki niður. Nokkuð lifnaði þó yfir Snæfell með tilkomu Bjargar Einarsdóttur inn á völlinn. Björg setti niður tvo góða þrista með stuttu millibili og breytti stöðunni í 27-28 Snæfell í vil og kom Hólmurum á bragðið sem gerðu næstu fimm stig í röð og leiddu 27-33 í hálfleik.
Dranadia Roc var kominn með 11 stig fyrir Val í hálfleik en hjá Snæfell var Sherell Hobbs með 13 stig.
Snæfell gerði fimm fyrstu stigin í upphafi síðari hálfleiks og beittu einnig svæðisvörn sem Valskonur áttu bágt með að leysa. Sherell Hobbs var nú búin að finna fjölina í skotunum sínum og með tveimur þristum braut hún á bak aftur máttlitlar tilraunir Vals til að brúa bilið á milli liðanna.
Berglind splæsti í þrist fyrir Valskonur þegar um 30 sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta en Snæfellingar áttu einnig svar við því þar sem Sara Sædal svaraði að bragði með þriggja stiga körfu og Hólmarar leiddu 44-56 fyrir lokasprettinn.
Óafvitandi hver staðan væri í viðureign Njarðvíkur og Hauka tóku Snæfellingar enga sénsa heldur hertu róðurinn og gerðu 13 stig gegn tveimur frá Val í upphafi fjórða leikhluta og staðan 46-69. Valur hafði ekki þrek í að nálgast Snæfell á nýjan leik og gestirnir sigldu inn í þægilegan
58-83 sigur.
Sherell Hobbs var stigahæst í liði Snæfells með 30 stig en næst henni var Gunnhildur Gunnarsdóttir með 16 stig. Hjá Valskonum var Dranadia Roc með 17 stig en og Hrund Jóhannsdóttir gerði 10 stig og tók 17 fráköst.
Snæfell mun því mæta Keflavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og að sama skapi munu Grindavík og Haukar mætast í hinni rimmunni.



