Laugdælir lögðu ÍR í unglingaflokki karla auðveldlega á Vatninu í kvöld 94-70. ÍR liðið sá aldrei til sólar enda héldu frískir Laugdælir þeim í kafi allan tímann frá fyrstu mínútu. Snorri Þorvaldsson fór sem herforingi fyrir sínu liði og smaug út úr öllum pressutilburðum ÍR-inga og kláraði oft sjálfur upp við körfuna eða átti stoðsendingar.
Þá kom Anton Kári líka sterkur inn með 7 þrista, nokkur blokkuð skot og fráköst. Aron Tommi, Arnór og Baldur tóku mikið af fráköstum bæði í sókn og vörn og hafa bætt leik sinn gífurlega í vetur, það hefur einnig Ragnar Ingi gert en hann er enn í 10. bekk. Þá var Sigurður Orri með nokkra góða spretti upp að körfunni þó meiddur væri.
Leikur ÍR inga var máttlítill en lagaðist á köflum ef þeir fengu frið fyrir annars ágengri vörn Laugdæla. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 29-14. Smá lífsmark virtist koma fyrstu 5 mínútur annars hluta þegar staðan fór í 39-27 en þá kom 10 stiga rennsli Laugdæla og tölurnar í hálfleik voru 49-27. Þriðji leikhluti var sama kaffæringin og sá Snorri að mestu um það og tölurnar urðu 81-48. Ljóst var á leik heimamanna síðasta fjórðunginn að leikurinn var unninn og menn ekki tilbúnir í eins stífa varnarvinnu. Við það losnaði nokkuð um skyttur ÍR inga sem björguðu andlitinu með nokkrum góðum þristum og sigur í leikhlutanum þó það dygði skammt. Ágætir dómarar leiksins voru þeir Sigurður Einar Guðjónsson og Tryggvi Oddsson.
Ljósmynd/Kristrún Sigurfinnsdóttir: Snorri (12) stjórnaði Laugdælum í stórsigri á ÍR í unglingaflokki. Anton Kári og Ragnar Ingi tilbúnir að fá boltann.
Texti: Kári Jónsson



