Grindavík lagði Keflavík 76-72 eftir spennandi lokasprett í Iceland Express deild karla í kvöld. Ómar Sævarsson gerði út um leikinn þegar 4 sekúndur voru til leiksloka en Keflvíkingar vildu fá sóknarvillu í síðustu Grindavíkursókninni en fengu ekki. Fyrir vikið eru liðin nú jöfn að stigum í 2. sæti deildarinnar, bæði með 28 stig en KR hefur fjögurra stiga forskot á toppnum með 32 stig eftir öruggan sigur á Blikum í kvöld. Darrell Flake var illvígur í Grindavíkurliðinu með 29 stig og 9 fráköst.
Páll Axel Vilbergsson var fjarri góðu gamni í kvöld sökum veikinda svo Grindvíkingar settu aðra byssu í byrjunarliðið, Guðlaug Eyjólfsson. Darrell Flake lét strax mikið til sín taka í teignum og gerði sex af fyrstu átta stigum Grindavíkur í leiknum sem leiddu 8-7 eftir rúmlega þriggja mínútna leik.
Urule fékk slæma byltu í liði Keflavíkur er hann hugðist verja skot frá Darrell Flake og kenndi Urule sér eymsla fyrir vikið og hélt af velli en hann kom síðar aftur inn á svo meiðslin voru ekki stórvægileg.
Keflvíkingar voru ískaldir í fyrsta leikhluta og hittu aðeins úr 1 af 9 þriggja stiga skotum sínum og því leiddu heimamenn 19-15 að loknum fyrsta leikhluta en Grindvíkingar voru að leika fína vörn sem og Keflavík en sóknir liðanna voru stirðar.
Snemma í öðrum leikhluta setti Arnar Freyr Jónsson þrist yfir sína gömlu félaga í Keflavík og staðan 22-17 fyrir Grindavík. Ekki leið á löngu uns Sverrir Þór Sverrisson kom inná í liði Keflavíkur og hann barði sína menn áfram. Guðlaugur Eyjólfsson hélt þó heimamönnum við efnið og breytti stöðunni í 32-26 með þriggja stiga körfu.
Með Flake fremstan í flokki voru það Grindvíkingar sem náðu upp fínni forystu og leiddu 41-32 í hálfleik eftir þokkalegan fyrri hálfleik. Varnir liðanna voru ágætar en skotnýtingin fremur slök og Keflvíkingar t.d. aðeins með einn þrist í 14 tilraunum í fyrri hálfleik.
Darrell Flake var með 16 stig og 5 fráköst í fyrri hálfleik en í liði Keflavíkur var Hörður Axel Vilhjálmsson með 8 stig.
Keflvíkingar beittu svæðisvörn í upphafi síðari hálfleiks og hægði það á heimamönnum sem þó fundu glufur uppi á lyklunum þar sem Ómar og Flake settu nokkur góð stökkskot. Keflvíkingar færðust þó nær og ekki leið á löngu uns heimamenn voru líka farnir að beita svæðisvörn.
Gunnar Einarsson var líflegur í þriðja leikhluta og barðist vel á báðum endum vallarins en hann minnkaði muninn í 50-49 og á þessum tíma áttuðu áhorfendur sig loks að þeir væru staddir á körfuboltaleik. Fram að þessu hafði verið hálfgert þagnabindindi í stúkunni.
Ólafur Ólafsson átti fína rispu hjá Grindavík undir lok þriðja leikhluta, mætti inn af bekknum með stoðsendingu og sóknarfrákast í hæð þar sem loftið er þunnt og á leið sinni niður skilaði hann boltanum í netið og Grindvíkingar leiddu síðan 61-60 eftir þriðja leikhluta. Keflvíkingar unnu leikhlutann 20-28 og spennandi lokakafli framundan.
Eftir tveggja mínútna leik í fjórða leikhluta fékk Darrell Flake sína fjórðu villu og varð frá að víkja. Talsverður broddur fór því úr sókn Grindavíkur fyrir vikið en Ólafur Ólafsson gerði fyrstu stig heimamanna eftir næstum þrjár mínútur og þá var staðan orðin 63-64 fyrir Keflavík.
Grindvíkingar endurheimtu forystuna 70-68 þegar Þorleifur Ólafsson skoraði í teignum en þegar 1.57 mín. voru til leiksloka mætti Guðlaugur Eyjólfsson með eina dýrustu körfu leiksins er hann setti niður þrist og breytti stöðunni í 73-69.
Ekkert var skorað í rúma mínútu en Ómar Sævarsson fékk tvö víti þegar 43 sekúndur voru eftir af leiknum og setti hann niður annað skotið og staðan 74-69. Keflvíkingar brunuðu upp völlinn og fundu sinn besta mann í kvöld, Gunnar Einarsson, sem kveikti von með góðri þriggja stiga körfu og staðan 74-72 þegar 30 sekúndur voru til leiksloka.
Í næstu sókn heimtuðu Keflvíkingar sóknarvillu á Grindvíkinga en fengu ekki og Ómar Sævarsson reif sig upp í teignum og skoraði og staðan 76-72 fyrir Grindavík. Keflvíkingar fóru fram völlinn og brenndu af þriggja stiga skotinu sínu og Grindavík fagnaði sigri.
Darrell Flake var fremstur meðal jafningja í kvöld með 29 stig og 9 fráköst. Næstur honum í liði Grindavíkur var Ómar Sævarsson með 12 stig, 10 fráköst og 3 varin skot.
Hjá Keflavík var Gunnar Einarsson atkvæðamestur með 20 stig og 7 fráköst. Aðrir voru nokkuð frá sínu besta og t.d. gerði Hörður Axel Vilhjálmsson ekki stig í síðari hálfleik og lauk því leik með 8 stig. Draelon Burns gerði 14 stig í kvöld en brenndi af öllum 8 þriggja stiga tilraunum sínum.



