Fjölnismenn gerðu sér ferð austur fyrir fjall og heimsóttu Hamar í blómabænum í kvöld í uppgjörinu um 7. sætið í Iceland Express deild karla þar sem bæði lið voru jöfn að stigum með 12 stig fyrir 19. umferðina sem hófst í kvöld.
Heimamenn mættu hungraðir til leiks og byrjuðu nokkuð betur en gestunum gekk illa að skapa sér almennileg færi í upphafi og Hamarsmenn sigu hægt og rólega fram úr og voru komnir með 12 stiga forystu eftir fyrsta leikhlutann 24-12. Þar létu heimamenn þó ekki sitja og héldu uppteknum hætti í 2. leikhluta og bættu í forskotið sem var orðið 20 stig í hálfleik og heimamenn með öll völd á vellinum.
Byrjun þriðja leikhluta var í anda fyrri hálfleiksins, en meira janfræði var þó með liðunum og Hamarsmenn áttu í erfiðleikum með að ná aga í sóknarleik sinn á meðan Fjölnir saxaði lúmskt á forskot heimamanna, en þeir fengu nokkuð af seinni sénsum í fjórðungnum þar sem heimamenn virtust gleyma á köflum að stíga út. Þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja fjórðungnum var munurinn kominn niður í 12 stig, 64-52 og áfram héldu gestirnir að minnka muninn og náðu honum niður í 6 stig, 65-59 þegar 3. leikhluta lauk og höfðu þar af leiðandi unnið þann leikhluta 32-18 og Ágúst Björgvinsson allt annað en sáttur með kæruleysi sinna manna.
Fjórði leikhlutinn var síðan nokkuð jafn þó að munurinn hafi verið 6-10 stig heimamönnum í vil þá voru Fjölnismenn til alls líklegir. Þegar tvær mínútur voru eftir var staðan 77-70. Stóru strákarnir hjá Hamri, Svavar og Ragnar lentu í vandræðum á vítalínunni á meðen gestirnir svöruðu fyrir utan þriggjastiga línuna og margt leit út fyrir að strákarnir hans Bárðar ætluðu að stela sigrinum á lokamínútunni sem þó virtist aldrei ætla að enda, þar sem báðir þjálfararnir tóku bæði leikhléin sín á síðustu 40 sekúndum leiksins, og minnti þessi lokamínúta um margt á leik í NBA deildinni.
Hamarsmönnum tókst þó að standast áhlaupið og sigra með 6 stiga mun 87-81 í nokkuð sveiflukenndum leik. Fjölnismenn geta þakkað come-backið sitt þeim Tómasi Heiðari og Ægi Þór sem stigu upp fyrir utan þriggjastiga línuna í þriðja leikhlutanum og settu saman niður 6 af 9 þriggjastiga skotum sínum i fjórðungnum, en svæðisvörn Hamarsmanna átti engin svör við skotahita þeirra.
Hjá heimamönnum var Marvin Valdimarsson atkvæðamestur með 25 stig og 10 fráköst og Andre Dabney skoraði 22 stig, gaf 5 stoðsendingar og stal 4 boltum. Viðar Hafsteinsson skoraði 15 stig og Svavar Páll 12.
Hjá gestunum var Chris Smith með 22 stig og 14 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 22 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar og Tómas Heiðar með 20 stig.
Texti: Sævar Logi Ólafsson



