39 stig frá Kobe Bryant voru ekki nóg til að tryggja LA Lakers sigur í Miami í nótt þar sem heimamenn í Heat fögnuðu þriggja stiga sigri, 114-111, eftir framlengingu. Leikurinn var ótrúlega spennandi þar sem liðin skiptust á að leiða, en Heat voru í lykilstöðu þegar skammt var eftir af venjulegum leiktíma. Þeir höfðu átta stiga forskot og 3:40 eftir, en Lakers unnu sig upp aftur og það var enginn annar en Kobe sem tryggði sínum mönnum framlengingu með stökkskoti á síðustu sekúndum leiksins.
Í framlengingunni hélt spennan áfram, en á lykilstundu fékk Jermaine O‘Neal dæmdan ruðning á Kobe og Lakers áttu aldrei tækifæri á sigri eftir það.
Lakers eru enn efstir í Vesturdeildinni, en eru tveimur sigrum á eftir Cleveland sem leiðir NBA. Miami eru nú með 50% vinningshlutfall og komnir í úrslitasæti í Austurdeildinni.



