spot_img
HomeFréttirHaukar tryggðu annað sætið

Haukar tryggðu annað sætið

Þórsarar biðu lægri hlut gegn Haukum 81-89 þegar liðin mættust í 17. umferð 1. deildar karla. Jafnræði var með liðunum í byrjun leiks en Haukar náðu góðum spretti undir lok fyrri háfleiks og leiddu með 10 stigum í hálfleik. Haukarnir byggðu upp þægilegt forskot í síðari háflleik og leiddu leikinn lengi vel með 13-15 stigum. Þórsarar náðu þó að klóra í bakkann undir lokin með góðri baráttu en það var of seint og Haukarnir fögnuðu því átta stiga sigri, 81-89.
Bæði lið komu ákveðin til leiks og skiptust liðin á að skora. Jafnræði var með liðunum lengst af fyrsta leikhluta. Er líða tók á fjórðunginn fóru gestirnir að spila þéttari vörn á meðan lítið gekk upp hjá heimamönnum sem töpuðu stundum boltanum nokkuð klaufalega. Gestirnir náðu góðum spretti undir lok fjórðungsins og leiddu leikinn með níu stigum, 14:23. Þórsarar komu grimmir til leiks í öðrum fjórðungi og skoruðu fyrstu sex stigin og breyttu stöðunni úr 14:23 í 20:23.Haukar náðu þó að ranka við sér eftir þennan hamagang heimamanna. Með ágætis vörn náðu gestirnir góðum 10-4 spretti og breyttu stöðunni úr 20:23 í 24-33. Gestirnir héldu 9-10 stiga forskoti á gestina og er fyrri hálfleiknum lauk leiddu gestirnir leikinn með 10 stigum, 36-46.
 
Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn betur en heimamenn og náðu tólf stiga forystu um miðbik fjórðungsins, 49-61. Gestirnir hleyptu heimamönnum aldrei of nálægt sér og leiddu leikinn með 10-13 stigum. Heimamenn náðu aldrei neinum spretti til að minnka forskot gestanna enn frekar og því leiddu gestirnir með 10 stigum, 58-68 eftir þriðja leikhluta. Haukarnir héldu áfram sama dampi í byrjun fjórða leikhluta og héldu þægilegu 13-15 stiga forskoti á heimamenn. Fátt virtist ganga upp í sóknarleik heimamanna, skotin voru ekki að detta niður og vörnin var heldur ekki að halda nógu vel. Hins vegar undir lok leiksins byrjuðu heimamenn að sýna mikla baráttu og smá saman tókst þeim að minnka forsktot gestanna. Þórsarar náðu að minnka forskotið niður í átta stig en lengra komust þeir ekki og gestirnir fögnuðu því sigri, 81-89.
 
Stigaskor Þórs: Páll Kristinsson 30, Óðinn Ásgeirsson 14, Baldur Már Stefánsson 12, Wesley Hsu 7, Bjarki Oddsson 7, Elvar Sigurjónsson 4, Sigmundur Eiríksson 2, Sindri Davíðsson 2, Björgvin Jóhannesson 2 og Bjarni Árnason 1
 
Stigaskor Hauka: Semaj Inge 29, Davíð Páll Hermansson 17, Óskar Ingi Magnússon 14, Örn Sigurðarson 7, Sævar Ingi Haraldsson 7, Ingvar Guðjónsson 6, Elvar Steinn Traustason 4, Lúðvík Bjarnason 3 og Emil Barja 2
 
Myndir hjá Rúnar Hauki Ingimarssyni
 
 
Fréttir
- Auglýsing -