Nýliðar Skagamanna féllu úr 1. deildinni í gærkvöldi eftir 98-106 tap fyrir Hetti á heimavelli. Fyrir leikinn í gær voru Skagamenn með 8 stig en Höttur 12 en aðeins eins umferð er núna eftir.
Gestirnir byrjuðu mun betur í leiknum í gær og leikmenn ÍA-liðsins voru ekki að spila eins og þeir væru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni, varnarleikurinn var slakur og sóknarleikur þeirra var stirður. Leikmenn Hattar voru komnir með 3-10 forustu í byrjun og voru að spila vel, tölur eftir þetta voru 10-19, 15-27 og 17-30 en þannig lauk fyrsta leikhluta.
Annar leikhluti byrjaði svipað og sá fyrsti, þar sem gestirnir skoruðu að vild og staðan var orðin 20-36 fljótlega í öðrum hluta. En þá vöknuðu Skagamenn af værum blundi og hertu vörnina og sóknarleikurinn gekk betur og á stuttum tíma var staðan allt í einu 31-36 og hörkuleikur í gangi. Tölur eftir þetta 35-41, 40-48 og 46-52 en þannig var staðan í hálfleik.
Heimamenn byrjuðu Seinni háfleikinn mjög vel og skorðu fyrstu fimm stigin og munurinn aðeins eitt stig 51-52. Þá tóku Hattamenn við sér og juku muninn aftur í 53-62 og eftir þetta voru þeir með fimm til tíu stiga forskot og þegar þriðji leikhluti endaði höfðu gestirnir forustu 68-79.
Það var eins og leikmenn ÍA-liðsins gerðu sér ekki grein fyrir mikilvægi leiksins því þeir byrjuðu seinasta leikhlutan skelfilega og Höttur skoraði fyrstu sex stigin og voru komnir með þægilega forustu 68-85. Þegar fimm mínútur voru til leiksloka voru Hattarmenn með góða forustu 77-95. Þá virtust Skagamenn aðeins vakna og minnkuðu þeir muninn jafnt og þétt, en það var aðeins of seint og leiknum lauk með sanngjörnum sigri Hattamanna 98-106 og björguðu þeir sér því frá falli en sendu um leið Skagamenn niður í 2. deild.
Hjá heimamönnum var Hörður Nikulásson með 24 stig og 5 stoðsendingar. Dagur Þórisson með 21 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar Trausti Freyr Jónsson með 14 stig, 11 stoðsendingar og 4 fráköst og Halldór Gunnar Jónsson gerði 17 stig.
Hjá Gestunum átti Akeem Clark stórbrotin leik með 48 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar og skotnýting hans var mjög góð. Gamla brýnið Hannibal Guðmundsson átti fínan leik með 15 stig og 7 fráköst. Ágúst Dearborn stjórnaði leik sinna manna mjög vel og að auki spilaði hann góða vörn, hann var með 6 stig, 12 stoðsendingar og 7 fráköst.
Það er því ljóst að Skagamenn stoppa stutt í þessari deild eftir að hafa unnið aðra deildina í fyrra. Þeir spiluðu vel í mörgum leikjum en liðinu vantaði allan stöðuleika og kannski hefðu þeir átt að bregða á það ráð eins og flest liðin í 1. deild að fá sér erlendan leikmann þó það hefði ekki verið fyrr en um áramót. Það sást vel í þessum leik að þessir leikmenn geta skipt sköpum fyrir liðin.
Umfjöllun: Kolbrún Íris
Mynd: Samúel Ágúst



