spot_img
HomeFréttirNets sigruðu Knicks - Cleveland tapaði án LeBron

Nets sigruðu Knicks – Cleveland tapaði án LeBron

New Jersey Nets færðust einu skrefi fjær sögubókunum með sigri á grönnum sínum í New York Knicks í nótt, 93-113. Þeir hafa nú unnið sjö leiki og hafa 27 leiki til að vinna þrjá leiki og komast upp fyrir lið Philadelphia 76ers frá árinu 1972-73, sem unnu aðeins 9 leiki, sem er versti árangur allra tíma.
 
Devin Harris (mynd) skoraði 31 stig fyrir Nets, en Knicks áttu herfilegan leik þar sem þeir klikkuðu m.a. úr öllum átján 3ja stiga skotum sínum.
 
Nokkru austar voru Dallas Mavericks að vinna sinn ellefta leik í röð, nú gegn Chicago Bulls á þeirra eigin heimavelli. Lokatölur voru 116-122 þar sem Mavs stóðu af sér endurkomu Bulls í fjórða leikhluta og lönduðu góðum sigri.
 
Á meðan töpuðu Cleveland Cavaliers, topplið deildarinnar, fyrir Milwaukee Bucks, 92-85, en þeir voru án LeBron James sem á við minniháttar ökklameiðsli að stríða og var hvíldur að þessu sinni. Þetta var fyrsti leikurinn sem James missir af í vetur, en fyrir var Shaquille O‘Neal á sjúkraskrá. Cavs hafa nú tapað síðustu tíu leikjum án James.
 
San Antonio Spurs fengu slæmar fréttir eftir sigur á Memphis þar sem leikstjórnandi þeirra, Tony Parker, reyndist handarbrotinn og verður frá keppni í sex vikur, eða fram að úrslitakeppninni.
 
Loks unnu Miami Heat góðan sigur á Atlanta Hawks, 100-94, og eru að koma sér æ betur fyrir í slagnum um sæti í úrslitakeppninni.
 
Úrslit næturinnar/Stigahæstir:
 
Golden State 90 Charlotte 101 Stephen Curry 25 – DJ Augustin 19
Atlanta 94 Miami 100 Jamal Crawford 24 – Dwayne Wade 38
New York 93 New Jersey 113 David Lee 23 – Devon Harris 31
Chicago 116 Dallas 122 Derrick Rose 34 – Dirk Nowitzki 27
Minnesota 98 Houston 112 Kevin Martin 30 – Kevin Love 30
Memphis 92 San Antonio 102 OJ Mayo 23 – Richard Jefferson 18
Cleveland 85 Milwaukee 92 Antawn Jamison 30 – Brandon Jennings 25
Indiana 105 Phoenix 113 Danny Granger 24 – Amare Stoudemire 30
LA Clippers 85 Utah 107 Drew Gooden 20 – Mehmet Okur 27
 
Fréttir
- Auglýsing -