Þór tapaði gegn KFÍ í gærkvöldi í 1. deild karla. Lokatölur leiksins voru 67-76 KFÍ í vil. Leikurinn fór fjörlega af stað hjá báðum liðum. KFÍ komst í 5-11 eftir 5 mínútna leik en þá komu Þórsarar til baka og minnkuðu munin í 15-16 þegar 1 mínúta var eftir af 1. leikhluta. Liðin skoruðu svo sitthvora körfuna og Pance kláraði svo leikhlutann á þrist og staðan því 17-21 eftir leikhlutann.
Annar leikhluti var mjög fjörlegur og var sett upp þriggja stiga sýning á tímabili. Þór setti niður 5 þrista og KFÍ 4 í leikhlutanum. Jafnræði var á með liðunum allan leikhlutanum en KFÍ þó alltaf skrefinu á undan. Staðan í hálfleik var 41-46 KFÍ í vil. 3. leikhluti var leikhluti hinna miklu varna. Bæði lið spiluðu frábæran varnarleik og fátt var um fína drætti í sóknarleiknum. Niðurstaða leikhlutans var að Þór vann hann með 9 stigum gegn 8 gestanna. Staðan eftir þriðja fjórðunginn var 50-54 fyrir KFÍ. Þór skoraði þrjú fyrstu stig 4. leikhlutans en þá náðu KFÍ menn 11 stiga runni og staðan allt í einu orðin 53-65. Þór gekk illa að minnka þennan mun aftur og lauk leiknum með 9 stiga sigri KFÍ 67-76.
Þór lék leikinn án Richard Field sem er meiddur og er ekki vitað hvenær hann verður klár í slaginn aftur. Hann er búinn að missa af síðustu tveimur leikjum.
Dómara leiksins voru : Sigmundur Már Herbertsson og Rögnvaldur Hreiðarsson og áttu þeir mjög góðan leik. Besta dómgæsla sem sést hefur í vetur allavegana í okkar leikjum.
Atkvæðamestir í Þórs liðinu voru: Magnús Pálsson með 23 stig og 9 fráköst. Valur Sigurðsson var með 10 stig og 5 fráköst ásamt því að spila hreint út sagt magnaða vörn á Craig Schoen. Bræðurnir Baldur Þór og Þorsteinn Már Ragnarssynir voru báðir með 9 stig og Þorsteinn tók þar að auki 5 fráköst en Baldur Þór var með 6 stoðsendingar. Grétar Erlendsson var með 8 stig og 6 fráköst. Ari Gylfason var með 6 stig.
Atkvæðamestir hjá KFÍ voru: Craig Schoen með 19 stig og 10 stoðsendingar og stýrði leik KFÍ manna mjög vel. Igor Tratnik var mjög góður og var með 18 stig 16 fráköst og 3 varin skot ásamt því að vera mikið fyrir í vörninni og þurftu menn að fara í erfiðari skot en vanalega vegna stærðar hans og þessara löngu handleggja. Pance var með 9 stig og 7 stoðsendingar. Hvalec var með 14 stig. Darko Milosevic var með 10 stig og 6 fráköst.
Umjföllun: Hákon Hjartarson



