spot_img
HomeFréttirStigaregn í Stykkishólmi

Stigaregn í Stykkishólmi

Snæfell og Keflavík mættust í Stykkishólmi í kvöld í öðrum leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni Iceland Express deildar kvenna. Keflavík vann fyrri leik liðanna í Keflavík á laugardaginn með 13 stiga mun og gat því tryggt sér sigur í rimmunni með sigri.
 
Leikurinn byrjaði fjörlega og var ljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt. Mikil barátta var í liði heimakvenna og voru þær ákveðnar að reyna framlengja tímabilið sitt í IE deildinni um allavega einn leik. Snæfellingar settu niður tvo þrista á fyrstu tveimur mínútum leiksins og þegar um fjórar mínútur voru liðnar af fyrsta hlutanum var staðan orðin 12-3 heimakonum í vil. Keflvíkingar tóku þá leikhlé til að endurskipuleggja sinn leik. Keflvíkingar skiptu þá í pressuvörn og pressuðu heimakonur stíft. Snæfellingar höfðu þó frumkvæðið framan af leikhlutanum en þegar um þrjár mínútur voru eftir fóru Keflavíkurkonur að saxa á forskotið. Keflvíkingar jöfnuðu svo leikinn og sigu fram úr í lok fjórðungsins og höfðu 6 stiga forystu 23-29 þegar leikhlutinn rann út.
 
Hjá Suðurnesjakonum var Birna Valgarðsdóttir komin með 10 stig og B. Guðmundsdóttir með 11 stig og 5 fráköst. Hjá Snæfelli var Sherell Hobbs með 11 stig og Sara Sædal með 6 stig.
 
Keflvíkingar byrjuðu annan leikhluta af sama krafti og þær luku þeim fyrri. Snæfellingar áttu erfitt með að finna taktinn og skoruðu þær ekki sín fyrstu stig í fjórðungnum fyrr en rúmlega þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Staðan var þá 25-31 Keflavík í vil. Snæfellskonur komust þá á gott skrið og náðu að jafna leikinn og svo komast yfir í 37-34 með góðri þriggja stiga körfu frá Söru Sædal. Snæfellsliðið var drifið áfram af mikilli stemmningu og góðum stuðningi áhorfenda sem flest allir, ef ekki allir voru á bandi heimakvenna. Þetta jafnræði á liðunum hélst til loka annars leikhluta og þegar flautan gall í Fjárhúsinu voru heimakonur með eins stigs forystu 46-45.
 
Birna Valgarðsdóttir var sem fyrr stigahæst Keflvíkinga með 16 stig og Bryndís Guðmundsdóttir var með 15 stig. Hjá Snæfelli var Sherell Hobbs í algjörum sérflokki með 20 stig en næst á eftir kom Sara Sædal með 9 stig.
 
Þriðji leikhluti byrjaði fjörlega og var mikill hraði í leiknum. Sherell Hobbs skoraði tvö stig og nældi í vítaskot í leiðinni sem hún setti niður. Keflvíkingar svöruðu um hæl með tveimur körfum úr hraðaupphlaupum. Mikil barátta var í Snæfellsliðinu en Keflvíkingar voru ekkert á þeim buxunum að gefast upp og skiptust liðin á að leiða leikinn og sem var hann bráðfjörugur. Staðan í lok þriðja leikhluta var 65-64 og stefndi í fjörugan lokaleikhluta. Flestar sóknir Snæfellskvenna fóru í gegnum Sherell Hobbs og var hún komin með 30 stig . Bryndís Guðmundsdóttir var með 22 stig fyrir Keflavík. Snæfellskonur voru komnar í töluverð villuvandræði og voru leikmenn númer Unnur Ásgeirsdóttir, Helga Hjördís Björgvinsdóttir og Gunnhildur Gunnarsdóttir allar með fjórar villur.
 
Unnur Ásgeirsdóttir lauk leik í byrjun fjórða leikhluta þegar hún fékk sína fimmtu villu. Keflvíkingar voru þá yfir 65-68. Þegar sex mínútur voru eftir fór Helga Hjördís Björgvinsdóttir einnig út af með 5 villur. Spennan hélst í leiknum og skiptust liðin á að hafa forystuna. Hrafnhildur Sævarsdóttir var sterk undir körfunni fyrir Snæfellinga og setti 6 stig niður á skömmum tíma. Birna Valgarðsdóttir var einnig sterk fyrir Keflvíkinga og setti niður 5 stig á skömmum tíma og kom Keflavík í 78-82 þegar um fjórar og hálf mínúta eftir af leiknum. Keflvíkingar komust svo í 83-88 þegar um tvær og hálf mínúta var eftir og virtist dregið af Snæfellingum og spurning hvort þær næðu að halda þetta út. Björg Einarsdóttir setti svo ískaldann þrist og minnkaði muninn í 86-89. Keflvíkingar skoruðu svo og stálu boltanum í kjölfarið og settu svo niður þriggja stiga körfu í og breyttu stöðunni í 86-93 og ein og hálf mínúta eftir. Sherell Hobbs reyndi svo erfitt þriggja stiga skot sem geigaði og Keflvíkingar fóru í sókn og skoruðu eitt stig af vítalínunni og breyttu stöðunni í 88-94. Sherell Hobbs skoraði svo og svo misstu Keflavík boltann og Björg skoraði. Snæfell náði svo boltanum og Sara Sædal skoraði magnaða þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í eitt stig 93-94.
 
Rafmagnað andrúmsloft var í Fjárhúsinu og 26 sekúndur eftir. Brotið var á Kristi Smith og fór hún á vítalínuna og skoraði úr báðum skotunum og staðan var 93-96 og 15 sekúndur eftir af leiknum. Sherell Hobbs var ekkert að tvínóna vil hlutina og jafnaði leikinn með þriggja stiga körfu og 10 sekúndur voru eftir. Keflavík fór upp með boltann og ætluðu að eiga síðasta skot leiksins. Kristi Smith braust í gegn og boltinn bars til Birnu Guðmundsdóttur sem reyndi skot undir körfunni og dansaði boltinn á körfuhringnum en niður vildi hann ekki. Frákastið féll svo til Snæfellinga og leiktíminn rann út. Staðan var 96-96 og aðrar eins tölur höfðu ekki sést í kvennaleik í Stykkishólmi í langan tíma. Það þurfti því að framlengja leikinn og fór um marga mömmuna í áhorfendastúkunni enda rafmögnuð spenna.
 
Sherell Hobbs byrjaði framlenginguna á þriggja stiga körfu en Svava Stefánsdóttir svaraði að bragði með þrist fyrir Keflvíkinga. Þegar hér var komið við sögu voru Sherell Hobbs og Björg Einarsdóttir og Gunnhildur Gunnarsdóttir allar komnar með fjórar villur og því mátti lítið út af bregða fyrir heimakonur. Snæfellingar klúðruðu svo tveimur sóknum í röð og Keflvíkingar skoruðu 6 stig í röð og staðan var orðin 101-107. Gunnhildur Gunnarsdóttir fór svo út af með 5 villur þegar tvær mínútur voru eftir og útlitið orðið svart. Lítið gekk í sókninni hjá Snæfelli og leituðu þær mikið að Sherell Hobbs sem var farin að þreytast.
 
Keflvíkingar spiluðu af mikilli yfirvegun og þegar 40 sekúndur var eftir var staðan 103-110. Snæfellingar misnotuðu svo sína sókn og Keflvíkingar fengu tvö vítaskot sem þær settu niður. Þar með var sigur Suðurnesjakvenna í höfn. Hildur Kjartansdóttir skoraði svo síðustu tvo stig leiksins og þar við sat, 105-112. Keflvíkingar fóru því með sigur af hólmi í æsispennandi leik sem hefði getað farið á hvorn veginn sem er. Snæfellskonur eiga mikið hrós skilið fyrir góða baráttu og verður gaman að fylgjast með þeim á næstu leiktíð. Keflavíkurkonur eru því komnar áfram og mætir Hamri í undanúrslitum.

Í liði Keflavíkur var Bryndís Guðmundsdóttir með stórleik en hún skoraði 37 stig og tók 15 fráköst. Birna Valgarðsdóttir var einnig öflug með 31 stig.

 
Hjá Snæfelli var Sherell Hobbs einvaldur með 42 stig og þar á eftir kom Gunnhildur Gunnarsdóttir með 15 stig.
Texti og myndir: Þorsteinn Eyþórsson
 
 
Fréttir
- Auglýsing -