spot_img
HomeFréttirÞetta er lottóvinningur

Þetta er lottóvinningur

 
,,Ég heyrði aðeins í honum í gær og hann var voðalega kátur, sagðist feginn að þetta væri frágengið og það lá vel á honum,“ sagði Páll Briem Magnússon í samtali við Karfan.is en sonur hans, Haukur Helgi Pálsson, hefur komist að munnlegu samkomulagi við bandaríska háskólann Maryland um að stunda þar nám og leika körfubolta næstu árin. Um svokallað munnlegt samkomulag er að ræða sem þykir nokkuð endanlegt í Bandaríkjunum og í því felst að Haukur ætli sér ekki að ræða við fleiri skóla.
Maryland leikur í ACC deildinni sem þykir ein sú besta í Bandaríkjunum en þar er að finna skóla á borð við Duke, North Carolina, Florida State, Georgia Tech og fleiri sem getið hafa af sér ófáa NBA leikmenn. Páll faðir Hauks sagði að fleiri skólar verið á höttunum eftir stráknum en Maryland.
 
,,Við ræddum þetta aðeins eftir að hann fór á þennan leik hjá Maryland og Duke þar sem Maryland vann leikinn á heimavelli frammi fyrir 18.000 áhorfendum! Hann var ekkert að fela það að honum langaði til að taka þátt í svona ævintýri. Annars var Davidson skólinn líka hrifinn af honum og mér leist mjög vel á þann skóla en þetta er frábært tækifæri fyrir Hauk. Gary Williams þjálfari Maryland sá Hauk spila í einum leik með Montverde og á einni æfingu og virtist mjög hrifinn af frammistöðu hans,“ sagði Páll en Haukur fór eftir síðasta tímabil með Fjölni í 1. deild út til Bandaríkjanna þar sem hann hefur verið að spila með Montverde.
 
,,Mér skilst að pappírsmálin við Maryland verði kláruð í apríl og að um sé að ræða fullan skólastyrk,“ sagði Páll en nám við álíka háskóla og Maryland hleypur á fleiri milljónum. Haukur er nú þegar á skólastyrk við Montverdeskólann en árið þar eru tæpir 40.000 dollarar eða rétt rúmar fimm milljónir íslenskra króna.
 
Haukur hefur þó enn skyldum að gegna á suðaustur-horni Bandaríkjanna hjá Montverde og sagði Páll faðir hans að mikil hjálp hefði verið fyrir Hauk að kynnast Óskari Kristjánssyni og fjölskyldu. ,,Óskar er búsettur þarna úti og rekur að mér skilst fyrirtæki sem hefur með flugiðnaðinn að gera. Þessi kynni Hauks við Óskar og fjölskyldu hafa hjálpað honum mikið því það er gott að geta gripið í móðurmálið annað slagið og þau hafa í raun verið honum eins og fjölskylda,“ sagði Páll en Óskar er búsettur ásamt fjölskyldu sinni í Orlando í um 20 mínútna fjarlægð frá Montverde-skólanum.
 
,,Haukur kemur heim í sumar eftir útskrift sem er í kringum 22. maí að mig minnir og þá er líklegt að einhver sumarskóli sé inni í myndinni og hugsanlega námskeið fyrir nýliða hjá Maryland skólanum og því viðbúið að hann verði farinn aftur út í júlí,“ sagði Páll og viðurkenndi að ekki væri 100% öruggt að Haukur gæti tekið þátt í Norðurlandamótinu með U 18 ára landsliði Íslands sem fram fer í Svíþjóð 12.-16. maí.
 
,,Haukur er vitaskuld æstur í að keppa á Norðurlandamótinu og ég veit að hann var eitthvað búinn að tala um þetta úti við forráðamenn skólans og þjálfarnn en þetta ætti að skýrast á næstunni. Ef þetta gengur eftir þá skýst hann bara beint til Svíþjóðar á Norðurlandamótið og strax aftur til Montverde,“ sagði Páll sem var ekki síður kátur en Haukur með stöðu mála þessa dagana.
 
,,Þetta er töluverður lottóvinningur, Haukur fær alltaf háskólanám út úr þessu við góðan skóla og hann er meðvitaður um að hann er að fara í sterkan körfuboltaskóla. Það ætti bara að herða hann að spila á svona getustigi,“ sagði Páll sem væntanlega mun á næstu fjórum árum fá einhver símtöl frá forvitnum Frónverjum um hvernig skuli útvega sér miða á leiki Maryland skólans.
 
Fréttir
- Auglýsing -