Jakob Örn Sigurðarson var stigahæstur í liði Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld þegar liðið tryggði sér góðan útisigur en Helgi Magnússon gerði 5 stig fyrir Solna sem tapaði á heimavelli.
Solna tók á móti Plannja sem er í 2. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar en lokatölur í Solnahallen voru 88-90 Plannja í vil. Helgi gerði eins og áður segir 5 stig í leiknum á þeim 15 mínútum sem hann spilaði. Helgi var einnig með 4 fráköst og eina stoðsendingu í leiknum.
Jakob Örn heldur áfram að láta að sér kveða í liði Sundsvall en hann gerði 17 stig fyrir sína menn í 58-69 útisigri gegn Jamtland. Jakob var einnig með 4 fráköst og 3 stoðsendingar í leiknum á 35 mínútum.



