Snæfell nýtti tækifærið vel nú þegar kvennalið félagsins lék í fyrsta sinn í úrslitakeppninni í úrvalsdeild kvenna. Snæfell mátti játa sig sigrað 2-0 eftir mikið og gott einvígi gegn Keflavík. Hið þaulreynda lið Keflavíkur mátti hafa sig allt við að slá út ungt og efnilegt lið Hólmara sem undir stjórn Inga Þórs Steinþórssonar kom nokkuð á óvart í einvíginu. Flestir höfðu spáð Keflavík öruggum sigri en annað kom á daginn.
Keflavík vann fyrsta leikinn 95-82 en framlengja varð seinni viðureign liðanna í Stykkishólmi þar sem Keflavík hafði þó að lokum sigur 105-112. Ingi Þór sagði í samtali við Karfan.is að það hefði verið ánægjulegt að sjá hversu margir leikmenn hefðu notið sín í þessum stóru leikjum og síðustu deildarleikjum fyrir úrslitakeppnina.
,,Við enduðum þetta vel, það voru ekki margir sem hefðu veðjað á að Snæfell myndi vera í bílstjórasætinu þegar þrjár mínútur voru eftir af fjórða leikhluta úti í Keflavík og hvað þá að fara í framlengingu í Hólminum. Það var magnað hvað liði elfdist eftir sigurinn gegn Njarðvík og svo Val í deildinni og þá fannst mér losna ákveðin pressa af hópnum og fínir hlutir fóru að gerast. Mér fannst við fara pressulausar inn í einvígið gegn Keflavík og það var ánægjulegt að sjá hvað allir leikmenn voru að njóta sín,“ sagði Ingi sem á miðju tímabili varð að taka inn nýjan leikmann fyrir Kristen Green sökum meiðsla en hún hafði unnið sér inn hug og hjörtu körfuknattleiksáhugamanna í Hólminum.
,,Við fengum nýjan leikmann í Sherell Hobbs um áramótin og það tók liðið tíma að aðlagast henni en hún var ólík Green sem var frábær leikmaður og ömurlegt að þurfa að skipta henni út. Reyndar er Green orðin góð af meiðslum sínum í dag svo það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Annars tók það Hobbs síðan smá tíma að ná áttum hér á Íslandi en undir lokin var hún búin að spila sig inn hjá fólki og reyndist okkur vel á lokasprettinum,“ sagði Ingi og bætti við að Snæfell væri ekki síður sigurvegar en Keflavík eftir rimmu liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
,,Við fengum frábært framlag og baráttu frá öllum og það er virkilega gaman að taka þátt í svoleiðis. Það var ekki mikið um sigra hjá okkur í vetur en við erum í raun sigurvegarar eftir glímuna við Keflavík þar sem margir héldu fyrirfram að Keflavík myndi vinna báða leikina í seríunni með 30 stiga mun,“ sagði Ingi og sagði sína liðsmenn í kvennaliði Snæfells hvergi nærri hætta þó leiktíðin væri á enda.
,,Keflavíkurleikina ætlum við að notfæra okkur til að bæta okkur enn frekar og vinna vel í okkar málum í sumar. Það er fyrirséð að einhverjar breytingar verði á liðinu en það er magnað að halda úti úrvalsdeildarliði með 12 heimaleikmönnum og okkar púsluspil er að raða þessu saman. Það er ánægjulegt að halda liðinu uppi á ungum stelpum og reynslan frá þessu tímabili er mikilvæg,“ sagði Ingi sem fær inn sterkan leikmann næsta tímabil í Berglindi Gunnarsdóttur sem sleit krossbönd í vetur. ,,Hún er sterkur leikmaður sem Snæfell bindur miklar vonir við,“ sagði Ingi Þór en við gátum ekki sleppt honum án þess að hann myndi rýna aðeins í undanúrslitin.
KR-Haukar
KR á erfitt verkefni fyrir höndum því Haukar eru með eitt af betri byrjunarliðunum af þessum fjórum liðum í undanúrslitum. María Lind er að koma mjög öflug inn fyrir Hauka eftir magnaða frammistöðu í bikarúrslitunum. Haukar eru virkilega sterkt lið og höfðu ekkert með það að gera að leika í B-riðli eftir að Kiki Lund kom til liðsins. Vörn KR þarf að vera skrambi góð til að leggja Hauka að velli því Hafnfirðinga reru með mjög sterkt lið. KR er deildarmeistari og flottir spilarar í því liði en ég held að varnarleikurinn eigi eftir að vega þungt og KR loki þessari seríu á vörninni. Það verður erfitt og fer eftir því hvernig KR hemur Ezell og Signý þarf að standa klár á fráköstunum gegn Rögnu Margréti og Telmu. Ég spái KR áfram 3-2.
Hamar-Keflavík
Hamar er á heimavelli og það gæti reynst liðinu dýrmætt. Hamar náði að brjóta ísinn með því að vinna sinn fyrsta sigur í Keflavík um daginn, múr sem þær hafa nú stigið yfir og þurfa ekki lengur að hafa það á bakinu. Keflavíkurliðið þarf að herða varnarleikinn og hemja eitthvað af þessum sóknarfráköstum sem Julia Demirer tekur, þá eiga þær möguleika en serían verður járn í járn. Þessir tveir leikir gegn okkur í Snæfell hafa gert Keflavík mjög gott þar sem þær voru að leggja baráttuglatt lið að velli og ég hugsa að það eigi eftir að hjálpa þeim. Annars tel ég að Keflavík taki einvígið 3-1.



