spot_img
HomeFréttirSpenna í 1. deild kvenna

Spenna í 1. deild kvenna

Um helgina kemur í ljós hvaða lið verður í 2.sæti í 1.deild kvenna og tryggir sér því rétt til að leika í úrslitakeppni deildarinnar og um sæti í efstu deild kvenna. Í ár eru 6 lið í deildinni og á síðasta KKÍ þingi var samþykkt sú breyting að spiluð er úrslitakeppni í 1.deild kvenna um það hvaða lið kemst upp í efstu deild.
Spiluð er þreföld umferð og liðin sem lenda í 1. og 2.sæti keppast um úrvaldsdeildarsæti að ári. Það lið sem fyrst vinnur 2 leiki kemst upp um deild. Fjölnir eru öruggar á toppi deildarinnar og fá afhentan deildarmeistaratitil á miðvikudaginn er þær mæta UMFG-b en mikil og hörð keppni er um 2.sæti deildarinnar og réttinn til að mæta Fjölni í úrslitum 1.deildar.
 
Staðan í deildinni fyrir seinustu umferðina er:
Fjölnir             13/1 26 stig
Þór Ak             8/6 16 stig
Skallagrímur 8/6 16 stig
Stjarnan          7/7 14 stig
Grindavík b    6/8 12 stig
Laugdælir      0/14 0 stig
 
Í seinustu umferðinni mætast eftirfarandi lið
 
Laugardag 13.mars kl.15:00 Skallagrímur – Stjarnan
Laugardag 13.mars kl.15:30 Þór Ak. – Laugdælir
Miðvikudag 17.mars kl.19:15 Fjölnir – Grindavík b
 
Liðin frá 2-5 sæti eru öll í hnapp en ljóst er að baráttan um 2.sæti er milli Þórs Ak. og Skallagríms. Hér fyrir neðan verður farið yfir möguleg úrslit deildarinnar:
 
Þór vinnur Laugdæli og Skallagrímur vinnur Stjörnuna:
Þá eru liðin jöfn með 18 stig en Þór Ak. hefur unnið allar þrjár viðureignirnar gegn Skallagrím og lenda því í 2.sæti vegna betri stöðu í innbyrðisviðureign.
 
Þór vinnur Laugdæli og Skallagrímur tapar fyrir Stjörnunni:
Þór nær 2.sæti með 18 stig en Skallagrímur verður í 3.sæti með 16. stig, jöfn stigum og Stjarnan en hafa unnið 2 af 3 leikjum sínum gegn Stjörnunni.
 
Þór tapar fyrir Laugdælum og Skallagrímur vinnur Stjörnuna:
Ef Þór tapar fyrir Laugdælum og Skallagrímur vinnur Stjörnuna þá eru Skallagrímsstelpur komnar með 18 stig meðan Þór situr eftir með 16 stig. Þá eru það Skallagrímsstelpur sem komast í úrslit.
 
Þór tapar fyrir Laugdælum og Skallagrímur tapar fyrir Stjörnunni:
Stjarnan, Þór og Skallagrímur verða öll jöfn í 2.-4.sæti með 16 stig. Þá eru það innbyrðisviðureignir allra þriggja liða sem telja. Þór hefur unnið Skallagrím 3x og Stjörnuna 1x og er því með 4-2 í innbyrðisviðureignum. Stjarnan hefur þá unnið Þór 2x og Skallagrím 1x og er því með 3-3 í innbyrðisviðureignum en Skallagrímur hefur alltaf tapað fyrir Þór og tapað einu sinni fyrir Stjörnunni og yrði því með 2-4 í innbyrðisviðureignum. Þór myndi þá ná 2.sæti, Stjarnan 3.sæti og Skallagrímur 4.sæti.
 
Engu máli skiptir hvernig leikur Fjölnis og Grindavík b fer. Fjölnir eru með 8 stiga forystu á toppi deildarinnar og Grindavík b getur jafnað Stjörnuna að stigum en Stjarnan hefur unnið 2 af 3 leikjum þessara liða og yrðu því í 4.sæti vegna innbyrðisviðureigna.
 
Það er því ljóst að á laugardaginn er mikið í húfi fyrir Þór Ak. og Skallagrím. Þór Ak. getur tryggt sér sæti í úrslitum með því að vinna sinn leik en Skallagrímur þarf að treysta á að Laugdælir vinni Þór og þar með sinn fyrsta sigur í deildinni svo Skallagrímur eigi möguleika á 2.sæti.
 
1.deild kvenna hefur verið spennandi í vetur fyrir utan efsta og neðsta sætið og það er vonandi að fleiri félög leggi metnað sinn í að senda mfl.kvk. til keppni, hvort sem það er a-lið sem keppir í 1.deild eða b-lið. Sterk og fjölmenn 1.deild kvenna er grundvöllur fyrir áframhaldandi vexti kvennakörfunnar.
 
Bryndís Gunnlaugsdóttir
 
Mynd: Tomasz Kolodziejski
 
 
Fréttir
- Auglýsing -