Þeir Eggert og Jón dæmdu samt vel og sýndu mikla yfirvegun í sínum aðgerðum þegar oft komu upp aðstæður til annars. Þó liðin séu að fara eins langt og þau komast í leikjunum varðandi hörku og annað er ánægjulegt að sjá dómara á þessum tímapunkti tímabilsins taka á hlutunum jafn yfirvegað og gert var í kvöld.
Brynjar leiddi rosalega endurkomu KR
Íslandsmeistarar KR eru komnir með aðra höndina á deildarmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla eftir dúndurmagnaða endurkomu í Ásgarði í kvöld. Allt stefndi í stórsigur Stjörnunnar sem leiddi með 20 stiga mun fyrir fjórða leikhluta en Vesturbæingar spýttu í lófana og unnu fjórða leikhluta 32-11 og leikinn 87-88. Nokkrum sinnum sauð upp úr í leiknum og ljóst að spennan fyrir úrslitakeppnina er að verða sumum leikmönnum og áhorfendum ofviða.
Brynjar Þór Björnsson var maður kvöldsins með 32 stig í liði KR en kappinn fór á kostum í síðari hálfleik og splæsti í 10 mikilvæg stig fyrir KR á síðustu tveimur mínútum leiksins. Fannar Ólafsson gerði þó sigurstigin á línunni þegar sex sekúndur lifðu leiks en Fannar skilaði myndarlegri tvennu í kvöld með 17 stig og 11 fráköst.
Heimamenn í Stjörnunni höfðu frumkvæðið eftir fyrsta leikhluta 22-16 þar sem helst dró til tíðinda að þeir Fannar Helgason og Fannar Ólafsson glímdu duglega og þar mætast stálin stinn. Þetta var bara byrjunin og dómarar leiksins áttu stórt og mikið verk fyrir höndum.
Með hverri mínútunni sem leið í öðrum leikhluta þéttist vörn Stjörnunnar og lykilleikmenn í liði KR á borð við Morgan Lewis, Tommy Johnson og Pavel Ermolinskij voru heillum horfnir í sóknarleik Íslandsmeistaranna. Þegar Stjarnan komst í 31-17 tóku gestirnir leikhlé og mættu aftur út á parketið með svæðisvörn að vopni. Stjörnumenn svöruðu þessari taktík KR-inga með fjórum þriggja stiga körfum og leiddu 44-27 þegar KR áttaði sig á því að svæðisvörnin væri jafn gagnleg á þessum tímapunkti og tannstöngull í hnífabardaga.
Þegar ein mínúta var til hálfleiks hafði Morgan Lewis fyrir því að koma sér á blað með þriggja stiga körfu og munurinn 14 stig, 44-30 Stjörnunni í vil. Það var þó Jovan Zdravevski sem átti lokaorðið í fyrri hálfleik með þriggja stiga körfu þegar 2 sekúndur voru eftir og Stjarnan leiddi 49-30 í hálfleik.
Liðin gengu þó ekki til búningsherbergjanna heldur rúlluðu þau þangað í miklum hamagang. Uppúr sauð á milli Tommy Johnson og Jovans þegar leiktíminn var liðinn og tvær hrúgur mynduðust við að afstýra þar slagsmálum og þetta varð saga Johnsons í kvöld sem virtist oft vera staðsettur í miðjum látunum.
Jovan, Justin og Pantelic voru afkastamestir hjá Stjörnunni í hálfleik og þá komu þeir Magnús Helgason og Kjartan Atli Kjartansson með stóra þrista en Fannar Ólafsson virtist vera sá eini í liði KR sem var tilbúinn í hörkuleik.
Justin Shouse fékk töluvert svigrúm í fyrri hálfleik en í þeim síðari voru KR-ingar orðnir nokkuð örvæntingafullir og skrúfuðu upp hitann í kringum Justin. Pressuðu hann stíft og tvídekkuðu vel gegn honum. Morgan Lewis var mest að dekka Justin og gerði það prýðilega sem kom niður á þessum skemmtilega leikmanni sóknarlega.
Heimamenn í Garðabæ héldu í horfinu í þriðja leikhluta og unnu leikhlutann 27-26 og staðan því 76-56 fyrir fjórða leikhluta. Fannar Helgason fékk sína fjórðu villu í þriðja leikhluta hjá Stjörnunni en fyrirliði Garðbæinga komst aldrei almennilega í takt við leik kvöldsins. Eflaust héldu flestir að stigin tvö væru í höfn þegar þeim varð litið á stigatöfluna fyrir fjórða leikhluta og sér í lagi eftir rosalegan endi Stjörnunnar á leikhlutanum. Ólafur J. Sigurðsson fékk boltann, dripplaði upp völlinn og tók erfitt þriggja stiga skot. Boltinn stoppaði eiginlega á hringnum og lak svo ofan í og Stjörnumenn ærðust nánast af fögnuði enda höfðu þeir verið að valta yfir topplið deildarinnar síðustu þrjátíu mínúturnar.
Í upphafi fjórða leikhluta ætlaði aftur að sjóða uppúr þegar mættust þar Kjartan Atli Kjartansson og Tommy Johnson. Skömmu síðar fór Tommy af velli og þá hófst viðsnúningurinn almennilega hjá KR-ingum. KR minnkaði muninn í 10 stig 84-74 þar sem Morgan Lewis tók myndarlega rispu, jarðaði þrist, KR stal svo boltanum og Brynjar Þór grýtti boltanum í loftið þar sem Lewis kom aðvífandi með skrímslatroðslu. KR-ingar brjálaðir, farnir að finna lyktina af sigrinum, Stjörnumenn að sama skapi að verja forskot sitt í stað þess að sækja.
KR herti varnarleikinn og ef satt skal segja komust þeir ansi langt með hann, bæði var vörnin góð og röndóttir sluppu við töluvert af villum, fengu aðeins dæmdar á sig þrjár villur í þessu glæsilega áhlaupi í fjórða leikhluta.
Síðustu tvær mínútur leiksins tók Brynjar Þór KR á herðar sér og bar liðið áfram. Brynjar setti lygilegan þrist og jafnaði leikinn í 87-87 þegar 40 sekúndur voru til leiksloka. Næsta Stjörnusókn fór út um þúfur og þegar 7 sekúndur voru eftir var brotið á Fannari Ólafssyni. Fannar hélt á línuna og setti aðeins fyrra skotið og staðan 87-88. Stjarnan hélt í sókn og Justin Shouse braust inn í teiginn og tók mjög erfitt skot sem geigaði og maður leiksins, Brynjar Þór, bætti á sig síðustu tölfræðiskráningu leiksins með frákasti og fagnaði svo með því að hlaupa völlinn endilangan og í faðminn á stuðningsmönnum KR.
Ótrúlegur viðsnúningur í Ásgarði þar sem KR vann fjórða leikhluta 32-11 og óhætt að segja að Garðbæingar hafi hreinlega farið á taugum og lært í kvöld afar dýra, en hugsanlega mikilvæga, lexíu. Körfuboltaleikurinn stendur nefnilega yfir í heilar 40 mínútur og það virtust KR-ingar fullmeðvitaðir um.
Brynjar Þór Björnsson, maður leiksins, gerði 32 stig í kvöld fyrir KR og þar lágu 7 þristar í 15 tilraunum. Brynjar var einnig með 4 fráköst og 4 stoðsendingar. Fannar Ólafsson var næstur í röðinni með 17 stig og 11 fráköst. Morgan Lewis gerði 13 stig í kvöld og lék fína vörn á Justin Shouse en Lewis var nokkuð seinn í gang í sóknarleik þeirra KR-inga. Tommy Johnson var í æsingahlutverkinu í kvöld og lítið kom út úr honum annað heldur en klafs en KR-ingar áttu sína bestu rispu í leiknum með Johnson utan vallar. Pavel Ermolinskij gerði 5 stig, var með 11 fráköst og 6 stoðsendingar en hann prjónaði sig oft fallega í gegnum vörn Stjörnunnar til þess eins að gefa erfiða sendingu í stað þess að klára sjálfur.
Jovan Zdravevski sýndi það að hann mætir alltaf klár í slaginn gegn KR, hann setti 22 stig í kvöld og tók 10 fráköst en rétt eins og aðrir liðsmenn Stjörnunnar var hann varla sýnilegur síðustu 10 mínútur leiksins. Justin Shouse var með 18 stig og 7 stoðsendingar í leiknum og var í strangri gæslu allan síðari hálfleikinn. Djorde Pantelic lét annað veifið finna fyrir sér í teignum og setti 17 stig í kvöld og tók 5 fráköst.
KR er nú á toppi deildarinnar með 34 stig en Stjarnan í 6. sæti með 26 stig. Ef blásið yrði til úrslitakeppninnar í dag myndi KR mæta Hamri í fyrstu umferð og Stjarnan mæta Grindavík.
Dómarar kvöldsins voru þeir Jón Guðmundsson og Eggert Þór Aðalsteinsson. Athygli vakti að í öllum þeim ryskingum sem áttu sér stað í kvöld var ekki dæmt eitt tæknivíti á liðin og bæði áttu þau það fyllilega skilið. Þegar fyrri hálfleik lauk sauð upp úr en það var á meðan leiktíma var lokið, væntanlega munu einhverjir sem tóku þátt í þeirri uppákomu fá orð í eyra frá aganefnd KKÍ. Bæði lið og starfsfólk leiksins í Ásgarði gerðu þó vel að halda aftur af mönnum áður en þeim tókst að smyrja í hnefasamlokur. Undirritaður fer samt ekki af því að nokkrir leikmenn hefðu haft afar gott af því að fá tæknivíti eða hreinlega láta henda sér út úr húsi því það kom fyrir að atvik sem ekki eiga heima í körfuboltaleik litu dagsins ljós.



