spot_img
HomeFréttirGrindavík batt enda á sjö leikja heimasigurgöngu Snæfells

Grindavík batt enda á sjö leikja heimasigurgöngu Snæfells

 
Grindvíkingar fóru í Stykkishólm í kvöld og mættu þar bikarmeiturum Snæfells í Iceland Express deild karla. Liðin voru að mætast eftir bikarúrslitaleikinn og nýr leikur tekur við þar sem baráttan á toppnum er gríðalega hörð eins og flestum er orðið kunnugt. Hlynur Bærings var kominn í Snæfellsliðið á ný en Þorleifur Ólafsson var ekki með í liði Grindavíkur í kvöld.
Leikurinn byrjaði varfærnislega en Snæfellingar voru einbeittari og þéttust með hverri mínútu. Grindavík gerði of mörg mistök til að Friðriki þætti það vera í lagi og tók leikhlé þegar Snæfell komst í 17-7 eftir troðslu frá Sigurði Þorvalds og meðbyr var með heimamönnum en þeir tóku sprett frá stöðunni 9-6 þeim í vil.
 
Grindvíkingar heyrðu hvert orð sem Friðrik hafði að segja líkt og aðrir í húsinu og náðu að þétta varnaleikinn sérstaklega og komast með því nær 19-16 og var Páll Axel að koma inn eftir að Darrell Flake hafði verið þeirra haldreipi. Hjá Snæfellingum voru þeir fóstbræður Hlynur og Sigurður að draga vagninn en Snæfell leiddi eftir fyrsta hluta 23-18.
 
Snæfellingar juku við forskotið þar sem Grindavík óganði aldrei í öðrum hluta að keyra á þá og voru langskot þeirra ekki að detta og reyndar skot yfirleitt þar sem menn virkuðu þungir. Snæfell komst fljótt í 30-20 og svo 35-25. Grindavík var ekki búið að skora nema 7 stig í öðrum hluta þegar mínúta var eftir á móti 18 stiga Snæfells sem voru komnir í 41-26 og voru Berkis og Burton með þennan hluta fyrir Snæfell en Grindavík setti önnur 7 áður en flautað var og Snæfell var yfir í hálflleik 41-32.
 
Hjá heimamönnum var Sigurður Þorvalds kominn með 10 stig. Hlynur Bærings 8 stig og 7 fráköst. Sean Burton hafði sett 7 stig og Jón Ólafur og Martins Berkis 6 stig hvor.
 
Í liði Grindavíkur var Páll Axel kominn með 9 stig. Arnar Feyr 7 stig og Darrel Flake 5 stig sem komu reyndar öll í fyrsta hluta og lítið sást til hans fram til þessa.
 
Grindvíkingar komu örlítið ferskari úr búningsklefanum og Páll Axel bætti stöðuna talsvert með tveimur góðum þristum í 46-44 og að sjá að menn þar á bæ væru til í að selja sig svolítið fyrir liðið. Jón Ólafur og Sean Burton héldu Snæfelli við efnið sem náðu að halda forystu þrátt fyrir betri leik gestanna. Grindavík jafnaði 56-56 og komust svo síðar yfir 60-61 með góðum þrist frá Guðlaugi Eyjólfs. Hægt og bítandi sóttu Grindvíkingar á Snæfell í þriðja hlutanum og uppskáru forystu með harðfylgi 60-63 fyrir fjórða fjórðung.
 
Allur sóknarleikur Snæfells virtist strand en Grindavík voru með miklu betri vörn á köflum. Tveir stórþristar langt utan af velli frá Sean Burton komu ekki í veg fyrir 68-68 jöfnun Snæfells. Leikurinn var gríðarlega skemmtilegur fyrir vikið og liðin að skiptast á meðbyrnum. Flake var kominn aftur í gang fyrir Grindavík og Páll Axel einkar drjúgur en Jón Ólafur og Burton heitir Snæfellsmegin. Grindavík átti svo sprett og komst í 76-83 áður en Inga Þór var nóg boðið og tók leikhlé þegar 2:28 lifðu á klukkunni. Snæfell var að þjösnast mikið í sóknum og Ólafur var sem límdur á Sean Burton.
 
Burton fékk svo tvö víti og boltann þegar Ólafur sá lítið annað í stöðunni en peysutog. Snæfell átti núna líkt og Grindavík í fyrri hálfleik erfitt uppdráttar og voru að elta en voru slegnir til baka. Þegar 59 sek voru eftir var staðan 82-91 og hafði Grindavík sett 5 stig í röð með hraði. Snæfell fór í að brjóta af sér og klárðuð Grindvíkingar þetta bara á vítalínunni og tilþrif dagsins var svo háloftatroðsla Ólafs Ólafssonar eftir háa sendingu frá Arnari Frey. Úrslitin 88-98 fyrir Grindavík eftir kaflaskiptan leik.
 
Hjá Snæfelli var Sean Burton með 24 stig og 7 stoðs. Sigurður Þorvalds 19 stig. Jón Ólafur 17 stig og 8 fráköst. Hlynur Bærings 16 stig og 12 fráköst. Hjá Grindavík var Páll Axel með 24 stig. Arnar Freyr með 20 stig og 10 stoðs. Darrel Flake með 16 stig og 8 fráköst. Ómar Sævars 12 stig og Ólafur Ólafs 11 stig og 6 fráköst.
 
Grindavík styrkir stöðu sína í efri hlutanum eftir að hafa verið eins og svart og hvítt í leiknum og tóku á sínum þáttum á meðan Snæfell gerði sér erfitt fyrir í sínum leik í seinni hálfleik og voru bara að hnoðast gegn stífri vörn Grindavíkur.
 
Ljósmynd/Úr safni: Páll Axel var stigahæstur Grindvíkinga í kvöld 
Umfjöllun: Símon B. Hjaltalín.
Fréttir
- Auglýsing -