Grindvíkingar bundu í kvöld enda á sjö leikja heimasigurgöngu Snæfells í Iceland Express deild karla. Gulir og glaðir fóru með 10 stiga sigur úr Hólminum 88-98 þar sem Páll Axel setti 24 stig í liði Grindavíkur. Páll sagði sigurinn sætann og að Grindvíkingar hefðu rankað við sér eftir veglegan reiðilestur þjálfarans.
,,Þetta var lélegt hjá okkur framan af leik en mjög sætt að landa sigri. Við fengum reiðilestur í hálfleik og ég held líka að menn hafi bara áttað sig á því hversu lélegt þetta var hjá okkur. Svo kemur síðari hálfleikur og þá erum við bara að leika okkar besta bolta í langan tíma,“ sagði Páll Axel og kvað þetta soldið svart og hvítt hjá þeim í kvöld.
,,Við erum heilsteyptari núna en síðustu ár og erum að bæta okkur á öllum sviðum leiksins. Maður þarf að kunna að vinna leikina þar sem við erum kannski ekki að spila vel og hér áður var þetta kannski þannig að Grindavík var bara í basli ef við vorum ekki með um 70% þriggja stiga nýtingu. Núna er vörnin okkar að verða betri, við erum útsjónarsamari og spilamennskan fer batnandi,“ sagði Páll en Grindvíkingar eiga FSu og ÍR í síðustu tveimur deildarleikjunum sínum og margir hafa viðstöðulaust gefið gulum fjögur stig þar á silfurfati en Páll vill ekki heyra minnst á slíkt.
,,Það er ekkert gefið í þessu því við höfum t.d. tekið upp á því að gera svona sigurferðir í Hólminn og fara svo í leiki á móti liðum sem við eigum að vinna í næsta leik og tapa þeim bara. Það er eitthvað sem við eigum eftir að laga og það kemur með stöðugri spilamennsku hjá liðinu. Oft hefur það líka vantað hjá Grindavík að mæta til leiks gegn liðum í neðri hluta deildarinnar en við ætlum okkur að vera tilbúnir í alla leiki og það er ekkert gefins í þessu,“ sagði Páll Axel sem er nú með Grindavík í 2-.3. sæti deildarinnar ásamt Keflavík þar sem bæði lið hafa 30 stig.



