Logi Gunnarsson og félagar í franska NM1 deildarliðinu St. Etienne eiga strangan pakka fyrir höndum sem hefst í dag þegar liðið mætir Maritime Boulogne á útivelli. Þar sem St. Etienne var dæmt niður um deild riðlaðist keppnisfyrikomulagið hjá félaginu og nú næstu daga verður liðið að vinna upp þá leiki sem eru óspilaðir og því leikur St. Etienne þrjá leiki á sex dögum!
,,Við lögðum af stað í þessa útileiki í gær og komum ekkert aftur heim fyrr en á miðvikudaginn, þetta er svona ,,road trip NBA style,“ sagði Logi Gunnarsson í samtali við Karfan.is. Fyrir þetta langa ferðalag lék St. Etienne á móti Centre Federal BB og hafði liðið öruggan 99-70 sigur í leiknum. Logi var í byrjunarliðinu og var stigahæstur með 18 stig á þeim 25 mínútum sem hann spilaði ásamt því að vera með þrjár stoðsendingar.
,,Nú erum við eiginlega komnir með alveg fullan hóp aftur en menn hafa verið frá sökum meiðsla. Miðað við hvernig við höfum verið að spila eftir áramót þá eigum við góðan séns á því að ná mjög langt. Við vinnum upp leikinn sem okkur vantar á þriðjudaginn og þá höfum við spilað jafn marga leiki og hin liðin í deildinni,“ sagði Logi en St. Etienne er í 13. sæti deildarinnar í 18 liða deild.
,,Það verður vissulega erfitt að spila þrjá leiki á sex dögum og tveir fyrstu eru á útivelli. Við höfum ekki spilað nógu vel á útivelli og þurfum að byrja á því núna. Við erum með 11 tapleiki í vetur en toppliðið 7, svo þar á milli er allt voðalega jafnt,“ sagði Logi sem verður með St. Etienne í eldlínunni í dag gegn Boulogne.



