spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Pakkaður dagur á parketinu!

Leikir dagsins: Pakkaður dagur á parketinu!

 
Lætin hófust strax í morgun hjá yngri flokkum og þau munu halda áfram fram á kvöld í íþróttahúsum landsins enda pakkaður dagur á parketinu. Krýndir verða Íslandsmeistarar í 8. flokki karla og kvenna í dag, næstsíðasta umferðin í Iceland Express deild karla hefst og þá byrjar líka einvígi KR og Hauka í undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna. 
KR á heimaleikjaréttinn í seríunni gegn Haukum og því mætast liðin í DHL-Höllinni í kvöld kl. 19:15. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslitaviðureignina gegn annað hvort Hamri eða Keflavík.
 
Leikir í Iceland Express deild karla hefjast kl. 19:15 í kvöld:
 
Hamar-Stjarnan
Njarðvík-Snæfell
Breiðablik-Fjölnir
 
Hamar hefur 14 stig og berst fyrir sæti í úrslitakeppninni en Stjörnumenn eru í 6. sæti með 26 stig. Bæði lið eiga það sammerkt fyrir leik kvöldsins að hafa tapað síðasta leik með aðeins eins stigs mun. Hamar lá í Kópavogi gegn Blikum og Stjarnan í Ásgarði gegn KR. Það verða því tvö lið í súrari kantinum sem ganga inn á völlinn í Hveragerði í kvöld og von á miklum slag.
 
Njarðvík og Snæfell skipa í dag 4. og 5. sæti deildarinnar og ef þetta verður lokastaðan í deildinni myndu þessi tvö lið mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Njarðvík hefur 28 stig í 4. sæti en Snæfell 26 stig í 5. sæti. Njarðvík lá gegn Keflavík í síðustu umferð og þá lauk sjö leikja heimasigurgöngu Snæfellinga þegar þeir töpuðu með 10 stiga mun í Hólminum gegn Grindavík.
 
Slagur kvöldsins verður lífróður Blika sem fá Fjölni í heimsókn. Ef Breiðablik tapar leiknum þá eru þeir fallnir! Breiðablik er með 10 stig í 11. sæti deildarinnar og þar fyrir ofan koma Fjölnismenn með 12 stig í 10. sæti. Takist Blikum að vinna í kvöld jafna þeir Fjölni að stigum og þá ræðst það ekki fyrr en í lokaumferðinni hvaða lið fellur með FSu.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -