Njarðvíkingar voru gersamlega yfirspilaðir af frísku liði Snæfells í kvöld þegar liðin áttust við í Ljónagryfjunni. Bikarmeistararnir voru einfaldlega töluvert betri og innbyrtu verðskuldaðan 26 stiga sigur gegn afar slöku liði Njarðvíkinga.
Njarðvíkingar mættu vængbrotnir til leiks þar sem Magnús Þór Gunnarsson var meiddur á hné. Leikurinn hófst nokkuð jafnt en svo tók að draga á milli þar sem að Sean Burton setti niður 3 þrista með skömmu milli bili. Jón Ólafur var einnig sjóðandi heitur og kannski ekki nema von þar sem skot hans voru nánast í boði hússins og algerlega óáreytt af vörn heimamanna. Staðan var 23: 15 eftir fyrsta leikkhluta.
Gestirnir héldu áfram að þjarma að heimamönnum og Matrins Berkis kom þeim í 12 stiga forystu eftir að hafa stolið boltanum lúmskt og sett niður þrist. Njarðvíkingar réðu illa við hraðan á Sean Burton sem mataði félaga sína. Þessi færi voru gestirnir á nýta sér vel og voru komnir í stöðuna 42:27 þegar um 4 mínútur voru til hálfleiks. Nick Bradford virtist vera eini Njarðvíkingurinn með lífsmarki þessar mínúturnar en hann hafði skorað 22 stig af þeim 39 sem Njarðvíkingar skoruðu í fyrri hálfleik og ofaní það bætti hann 8 fráköstum. Vandamál Njarðvíkinga var hinsvegar töluvert meira varnarmeginn þar sem Snæfell hafði skorað 57 stig í fyrri hálfleik. Öll Njarðvíkurandlitin voru máluð vonleysi á leiðinni til búningsklefa í hálfleik og ekki nema von, 18 stigum undir í hálfleik á heimavelli og heimavallarréttur í úrslitakeppninni undir. Snæfell hafði sett niður 10 þrista í fyrri hálfleik og á meðan Njarðvík hafði brennt af öllum sínum 6 þristum. Vissulega Magnúsar Þórs saknað á þeim vígstöðvum.
Þriðji leikhluta hófu Njarðvíkingar á að skora fyrstu stiginn en Emil Jóhannsson hinsvegar svaraði fljótlega með þrist. Þolinmóður sóknarleikur Snæfells var að gera út af við Njarðvíkurvörnina og einnig voru gestirnir duglegir við sóknarfráköstin. Jóhann Ólafsson setti niður fyrsta þrist Njarðvíkinga þegar 4 mínútur voru eftir af þriðja leikhluta og munurinn niður í 16 stig. En betur mátti ef duga skildi. Sean Burton fékk tæknivíti um svipað leiti fyrir að kasta boltanum í Guðmund Jónsson eftir að Burton lenti í vandræðum að koma boltanum í leik. Vörn Njarðvíkinga var farin að herðast þegar leið á fjórðunginn og náðu þeir að minnka muninn niður í 14 stig fyrir síðasta fjórðung. 58:72.
Burton hóf fjórðunginn á einum löngum þrist og félögum hans þeim Sigurði Þorvaldssyni og “Nonna Mæju” hafa fundist þetta fín hugmynd hjá Burton og fylgdu hver með sinn þristinn og munurinn komin í 23 stig þegar 2 mínútur voru liðnar af fjórðungnum. Brekkan var vissulega brött fyrir fjórðungin hjá Njarðvíkingum en leit núna eins og að klífa fjall. Áfram héldu gestirnir að gera lítið úr heimamönnum og troðsla frá Sigurði Þorvaldssyni fylgdi stuttu í kjölfarið. Njarðvíkingar voru komnir á sama plani og í síðasta leik og ekkert benti til þess að þeir næðu að landa neinu úr þessum leik. Njarðvíkingar sýndu ágætis hörku undir lok leiks en það voru Snæfellingar sem voru skynsamir og þolinmóðir í sínum leik og sigruðu að lokum. Seinni hálfleikur vissulega betri hjá heimamönnum en þessum leik töpuðu þeir í þeim fyrri.
Viðtöl birtast innan skamms á Karfan TV



