KR sýndi klærnar og það allhressilega þegar þær sigruðu Hauka með 31 stigi, 78-47 í kvöld í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum IE-deildar kvenna. Heimastúlkur lögðu grunninn að sigrinum með nánast fullkomnum fyrsta leikhluta sem endaði 24-4 fyrir KR. Guðrún Gróa fór á kostum og hreinlega lokaði á Heather Ezell og sló það Hauka algjörlega út af laginu. Haukar komu sér smá saman meira inní leikinn eftir því sem leið á hann og áttu gott áhlaup á KR í þriðja leikhluta. Það munaði minnst 6 stigum þegar nokkrar sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta. KR mætti hins vegar brjálaðar til fjórða leikhluta og unnu hann 29-6. Því miður er tölfræðin úr leiknum ekki komin á netið og því ekki vitað um stigahæstu leikmenn.
Það var ljóst að KR-stelpur mættu mun beittari til leiks því þær lokuðu hreinlega í vörn og eftir tvö erfið skot frá Heather Ezell sem bæði geiguðu og nokkur vel heppnuð hraðaupphlaup hjá KR var staðan orðin 6-0 og aðeins ein og hálf mínúta liðin. Henning Henningson, þjálfari Hauka, tók því leikhlé til þess að stöðva þetta áhlaup KR. Það skilaði þó ekki miklu því þegar rétt rúmlega fjórar mínútur voru liðnar var staðan orðin 13-0 og gestirnir ennþá í bullandi vandræðum með að koma boltanum í körfuna. Það var ekki fyrr en leikhlutinn var hálfnaður að Telma Björk Fjalarsdóttir skoraði fyrstu stig gestana úr sniðskoti. Yfirburðir KR voru þvílíkir á upphafsmínútunum og þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta var staðan orðin 16-2. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var gjörsamlega með Heather Ezell í vasanum og var eins og reyndar allt KR liðið að spila stórkostlega vörn. Þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta var forskot heimastúlkna orðið 20 stig, 24-4.
KR hélt upptæknum hætti í byrjun annars leikhluta en þær pressuðu hátt og gáfu gestunum hvergi pláss. Það var hins vegar Bryndís Hanna Hreinsdóttir sem opnaði stigareikningin í öðrum leikhluta og nánast tvöfaldaði stigafjölda Hauka með laglegri þriggja stiga körfu langt fyrir utan línuna. Haukastúlkur virtust vera að vakna til lífsins því KR þurfti að hafa mun meira fyrir sínum stigum í öðrum leikhluta en ennþá gekk jafn illa hjá þeim að skora. Þegar leikhlutinn var hálfnaður munaði því ennþá rúmlega 22 stigum, 29-7, og tók því Henning leikhlé fyrir gestina. Um leið og Guðrún Gróa fékk hvíld fór Heather Ezell í gang en hún skoraði 12 stig í öðrum leikhluta og 10 þeirra þegar Guðrún Gróa hvíldi. Þessi stig gerðu það að verkum að það munaði aðeins 17 stigum þegar flautað var til hálfleiks, 36-19.
Unnur Tara Jónsdóttir fór á kostum undir körfunni fyrir KR í fyrri hálfleik og leiddi heimastúlkur í stigum með heil 16 stig. Næstar á blað voru Jenny Pfeiffer-Finora með 6 stig og Margrét Kara Sturludóttir með 4 stig. Hjá Haukum var Heather Ezell lang stigahæst með 12 stig en næstar voru Bryndís Hanna með 3 stig og Ragna Margrét Brynjarsdóttir með 2 stig.
Haukastúlkur mættu með sama ákafa í varnarleiknum og KR hafði gert allan fyrri hálfleik. Þær spiluðu aggressívt og en fengu fyrir vikið á sig nokkrar klaufavillur. Þær skoruðu fyrstu 4 stig leikhlutans áður en Unnur Tara Jónsdóttir skoraði fyrstu stig KR í seinni hálfleik af vítalínunni. Það leið því ekki að löngu þar til Haukastúlkur voru farnar að lenda í villuvandræðum. Heather Ezell fékk sína þriðju villu þegar fjórar mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta. Haukar minnkuðu muninn smá saman og þegar leikhlutinn var hálfnaður munaði aðeins 13 stigum á liðunum, 41-28. Unnur Tara náði sér í sína fjórðu villu um mínútu síðar en hún var að brjóta klaufalega af sér í þriðja leikhluta. Stemmingin færðist yfir, til liðs við gestina, sem höfðu náð muninum niður í 10 stig með þriggja stiga körfu frá Kristínu Fjólu Reynisdóttur og við það tók Benedikt Guðmundsson leikhlé fyrir KR, 43-33. Munurinn var kominn niður í 6 stig á lokasekúndunum þangað til Guðrún Gróa setti niður flautukörfu og KR hafði því yfir, 49-41 þegar flautað var til loka þriðja leikhluta.
KR fékk svo algjöra draumabyrjun á fjórða leikhluta þegar Margrét Kara varði skot frá Heather Ezell, KR brunaði fram og Jenny Pfeiffer-Finora setti niður risastóran þrist, 54-41. Henning tók svo leikhlé fyrir Hauka stuttu seinna en forskot heimamanna var aftur komið upp í 16 stig og aðeins rúmlega tvær mínútur liðnar af fjórða leikhluta, 57-41. Guðrún Gróa var send af velli með sína fimmtu villu þegar fjórar mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta en hún átti þrátt fyrir villuvandræði stórkostlegan leik í dag og hélt Heather Ezell nánast stigalausri þegar hún var inná, sem telst til afreka á mínum bæ. Haukar skoruðu sitt fyrsta stig í leikhlutanum ekki fyrr en hann var rúmlega hálfnaður og þá var það deginum ljósara hvoru megin sigurinn myndi fara þetta kvöldið. Fannar nokkur Ólafsson sem flest kvöld er nokkuð áberandi í KR heimilinu var ekki tilbúinn að gefa stelpunum alla athyglina þrátt fyrir frábæran leik því stöðva þurfti leikinn í fjórða leikhluta svo hann gæti sótt kornungt barn sitt til dómarans við miðjan völl, við mikinn fögnuð áhorfenda. Munurinn á liðunum var kominn aftur upp í heil 30 stig þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum, 74-44, og minni spámenn í báðum liðum fengu að spreyta sig. KR hafði á endanum 31 stig sigur, 78-47.
Umfjöllun: Gísli Ólafsson



