Garðbæingar gerðu góðu ferð austur fyrir fjall og sigruðu heimamenn örugglega í blómabænum í gærkvöld. Gestirnir byrjuðu af miklum krafti og skoruðu 10 fyrstu stig leiksins, en hálfgert ráðaleysi var í sóknarleik Hamarsmanna en Andre Dabney skoraði fyrstu stig Hamars eftir að hafa stolið boltanum af Shouse og komst í opið lay-up eftir tæplega 4. mínútna leik.
Eftir það komst nokkurt janfvægi á leikinn og skiptust liðin á að skora og staðan 11-22 eftir fyrsta leikhluta og greinilegt að Ágúst Björgvinsson þyrfti að töfra fram eitthvað úr erminni ef ekki ætti illa að fara.
Annar leikhlutinn var nokkuð jafn í flesta staði en Stjörnumenn höfðu þó alltaf frumkvæðið, en viss batamerki á heimamönnum sem skoruðu 17 stig á móti 19 stigum gestanna og staðan 28-41 í hálfleik. Hjá gestunum voru erlendu leikmennirnir í aðalhlutverki í fyrri hálfleiknum, en Joustin og Jorde voru með 10 stig hvor og Jovan með 8 stig, á meðan Andre var aðeins með 4 stig hjá heimamönnum en Marvin var með 13 stig.
Þriðji leikhlutinn spilaðist að stærstum hluta eins og annar leikhlutinn og skiptust liðin á körfum, en gestirnir áttu þó auðveldara með að láta boltann ganga, en leikgleðina vantaði hjá báðum liðum. Jorde náði að láta Odd Ólafs fara verulega í taugarnar á sér i fjórðungnum þrátt fyrir að það munaði nokkrum þyngdar- og stærðarflokkum á þeim og Joustin Shouse vandaði ekki dómrum leiksins kveðjurnar eftir að hafa fengið dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir að stöðva Marvin í hraðaupphlaupi og íslensku leikmenn Stjörnunnar boðuðu til krísufundar inni á vellinum meðan Marvin tók vítaskotin og bentu samherjum sínum á að þeir væru yfir 37-50 og 3. leikhlutinn nálægt því að vera hálfnaður og því skyldu menn gjöra svo vel að halda haus og spila körfubolta. Þetta virtist svínvirka og juku Stjörnmenn forskotið í 20 stig á næstu 2 mínútum en heimamenn náðu að laga stöðuna aðeins og munurinn 16 stig fyrir síðasta fjórðunginn 47-63.
Fyrir lokafjórðunginn lagði Ágúst Björgvinsson áherslu á að það væru ekki nema 10 mínútur eftir og menn ættu að klára leikinn á fyrsta tempói. Fyrir vikið varð síðasti fjórðungurinn stórskemtileg skemtun þrátt fyrir að það væri aldrei spurning hvort liðið myndi fara með sigur af hólmi. Það vildi þó svo óheppilega til fyrir Hvergerðingana að Stjörnumenn áttu ekki í miklum erfiðleikum að spila síðasta fjórðunginn á háu tempói og skiptust liðin á að setja niður þriggjastiga körfur eða skora á annan hátt og unnu Stjörnumenn síðasta fjórðunginn 26-33 en síðustu mínúturnar hvíldu Ágúst og Teitur báðir sína byrjunarliðsmenn sína og leyfðu öðrum að spreyta sig þar sem úrslitin voru löngu ráðin.
Atkvæðamestir í liði Hamars voru Marvin Valdimarsson með 18 stig og 8 fráköst, Andre Dabney með 16 stig og 9 fráköst, Viðar Örn Hafsteinsson 11 stig og Oddur Ólafsson 8 stig og 5 stoðsendingar.
Hjá Stjörnunni var Djorde Pantelic með tröllatvennu 20 stig og 12 fráköst auk 5 stoðsendinga, Justin Shouse 17 stig og 7 fráköst, Jovan Zdravevski 17 stig og Kjartan Atli Kjartansson 10 stig.
Umfjöllun og mynd: Sævar Logi Ólafsson



