Gunnar Einarsson gerði 9 stig í kvöld þegar Keflavík lagði KR í DHL-Höllinni í Iceland Express deild karla. Keflavík varð í kvöld fyrsta liðið til að skora 100 stig í DHL-Höllinni en Gunnar var sáttur við sigurinn þó svo hann hefði ekki haft mikla ánægju af fyrri hálfleik.
,,Við fórum inn í hálfleik og ákváðum að hætta bara að líta á helvítis klukkuna og bara spila körfubolta og taka hausinn út úr staðnum þar sem sólin skín ekki. Við vorum vægast sagt skelfilegir í fyrri hálfleik og í raun ótrúlegt að við skyldum ná að snúa þessu við en það sýnir hverslags karakter er í þessu liði,“ sagði Gunnar í samtali við Karfan.is eftir leik.
Ánægjulegt að koma hingað núna og ná í sigur því síðast þegar þið lékuð hérna tapaði Keflavík eftir þríframlengdan leik.
,,Já, síðast þegar við komum hingað lékum við í 60 mínútur samfleytt og við töpuðum og sá leikur fer manni seint úr minni,“ sagði Gunnar sem ásamt Keflvíkingum fær Hamar í heimsókn í síðustu umferð.
,,Það verður örugglega fín skotæfing hjá okkur eins og síðast nema Hamar bryddi upp á einhverju nýju og hætti að spila svæði,“ sagði Gunnar en hvernig líst honum á framhaldið?
,,Þetta verður rosalega flott og spennandi úrslitakeppni, öll liðin eru mjög jöfn og þó svo þau séu númer 6 eða 7 eða annars staðar í deildinni þá eru þetta allt háklassalið,“ sagði Gunnar sem hefur marga fjöruna sopið í úrvalsdeild. Man hann eftir annarri eins jafnri deild?
,,Veistu ég man voðalega lítið aftur og oft bara búinn að gleyma hlutunum eftir að leikurinn er búinn. Þetta er bara þannig að ég man vart hvað gerðist í síðustu sókn og það er viss kostur kannski,“ sagði Gunnar gamansamur í lokin.



