spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur heimamanna í Grindavík

Öruggur sigur heimamanna í Grindavík

 
Grindavík og FSu mættust í Röstinni í kvöld þar sem flestir gerðu ráð fyrir auðveldum sigri. Á meðan Grindvíkingar eru í harðri baráttu um efstu sæti deildarinnar er FSu þegar fallið niður í fyrstu deild. Grindavík spilaði án Þorleifs Ólafssonar og Darrell Flake.
Grindvíkingar byrjuðu leikinn sterkt og voru komnir með 10 stiga forystu strax um miðjan leikhlutann. Ómar Örn Sævarsson og Páll Axel Vilbergsson leiddu liðið í stigaskorun og höfðu báðir skorað yfir 10 stig eftir fyrsta leikhluta og Grindavík leiddi með 20 stigum.
 
Undir forystu Christopher Caird og Aleksas Zimnickas náðu FSu-menn aðeins að halda í við Grindavík í öðrum leikhlutanum. Grindvíkingar unnu þó leikhlutann með þremur stigum. Christopher og Aleksas höfðu eftir leikhlutann skorað sitthvor 14 stigin og því saman skorað 28 af 33 stigum FSu. Aleksas hafði einnig náð 7 fráköstum í fyrri hálfleiknum. Atkvæðamestir í fyrri hálfleiknum hjá Grindvíkingum voru áfram Ómar Örn, með 14 stig, og Páll Axel, með 18 stig.
 
Heimamenn komu inn í þriðja leikhlutann ákveðnir að klára leikinn. FSu skoraði ekki körfu fyrr en tæpar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Stigamunurinn átti aðeins eftir að aukast eftir því sem leið á leikhlutann, eftir hann var munurinn orðinn 42 stig og Grindavík hafði algerlega gert út um leikinn.
 
Aðeins var farið að slakna á vörn heimamanna í byrjun og eftir nokkrar auðveldar körfur frá FSu fannst Friðriki, þjálfara Grindavíkur, nóg komið og setti Ómar Örn Sævarsson inná. Hann tók leiðtogahlutverk í vörninni, Grindvíkingar héldu forystu sinni og leikurinn endaði með 40 stiga mun 106-66.
 
Gaman var að sjá að bæði lið notuðu alla sína leikmenn og sem dæmi má nefna að enginn leikmaður spilaði minna en þrjár mínútur í leiknum.
 
Christopher Caird, 27 stig og 8 fráköst, og Aleksas Zimnickas, 30 stig og 15 fráköst, drógu vagninn í liði FSu og voru án vafa langsterkastir.
 
Atkvæðamestir í liði Grindavíkur voru Ómar Örn, 22 stig og 11 fráköst, og Páll Axel, 28 stig. Einnig er vert að nefna Arnar Frey Jónsson sem var duglegur að skapa tækifæri fyrir aðra í liðinu og var með 15 stoðsendingar.
 
Lokaleikur FSu í Iceland Express deildinni þetta árið verður heimaleikur gegn Njarðvík þann 18. mars.
Grindavík leikur sinn síðasta deildarleik fyrir úrslitakeppni á móti ÍR í Seljaskóla en sá leikur er einnig 18. mars.
 
 
Umfjöllun: Sara Sigurðardóttir
Ljósmynd/ Úr safni: Ómar Örn Sævarsson gerði 22 stig og tók 11 fráköst í liði Grindavíkur í kvöld.
Fréttir
- Auglýsing -