spot_img
HomeFréttirMikill léttir þegar TCU kom upp á skjáinn

Mikill léttir þegar TCU kom upp á skjáinn

 
Í nótt voru þau lið kynnt til leiks sem sérstaklega skipuð valnefnd hafði valið til að taka þátt í úrslitakeppni bandarísku háskóladeildarinnar í körfubolta. Helena Sverrisdóttir og félagar í TCU hlutu náð fyrir augum valnefndarinnar og sagði Helena í samtali við Karfan.is að mikill léttir hefði verið í hópnum þegar nafn TCU birtist á skjánum. TCU er því enn á lífi þetta tímabilið og leikur gegn Dayton skólanum á laugardag í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Þetta stóð tæpt í ár en TCU var samt valið inn. Hvernig var andlegt ástand á hópnum á meðan þið biðuð eftir úrskurðinum?
Flestir "spámenn" höfðu okkur inni og því vorum við svona nokkuð vissar að við kæmumst inn. Það voru mikið af úrslitum um helgina sem voru okkur hagstæð og það hjálpaði, t.d. að Texas A&M var fyrsta liðið til að leggja Nebraska og við sigruðum A&M. Við vorum samankomnar með öllu liðsteyminu og um 100 nánustu stuðningsmönnum, þetta var ansi stressandi og mikill léttir þegar TCU kom upp á skjáinn.
 
Hefur þú eitthvað séð til Dayton liðsins, veistu hvernig andstæðing þið eruð að fá?
Nei við leikmennirnir vitum lítið sem ekkert um þær. Í gærkvöldi eftir valið vorum við með smá fund og við sáum á stattinu þeirra að þær eru með mjög jafnt lið í stigaskorun að minnsta kosti. Þjálfararnir okkar voru að vinna í að afla upplýsingum um þær og núna erum við á leið á æfingu, 12 klst síðar og ég er nokkuð viss um að þau viti fullt um Dayton.
 
Núna þegar TCU er komið inn, hafið þið sett ykkur eitthvað markmið um framhaldið?
Við sjáum þessa keppni sem 1 leik, við verðum að horfa á þetta svoleiðis. Að fá að spila í Tennessee er mjög mikill heiður, og höllin í Knoxville er risa stór. Við erum því mjög spenntar fyrir leiknum á laugardaginn og ætlum að hafa gaman af þessu og gefa allt í leikinn.
 
Fréttir
- Auglýsing -