Heil umferð fór fram í kvöld í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta þar sem Sundsvall Dragons töpuðu 74-65 á útivelli gegn Uppsala. Með ósigrinum eru Jakob Örn Sigurðarson og félagar í Sundsvall í 3. sæti deildarinnar og færast ekki þaðan þó enn sé ein umferð eftir. Þar sem Plannja tapaði í kvöld líkt og Sundsvall eru því enn fjögur stig á milli liðanna en sigur í kvöld hefði boðið upp á þann möguleika að Sundsvall gæti jafnað Plannja að stigum.
Jakob var næststigahæstur í liði Sundsvall í kvöld með 11 stig en stigahæstur var Andrew Spagrud með 19 stig. Jakob lék í 35 mínútur, gerði 11 stig, tók 5 fráköst og 3 stoðsendingar.
Síðasta umferð deildarinnar fer fram á fimmtudag en þá mætast þeir einmitt félagarnir Helgi Már, Solna, og Jakob Örn, Sundsvall á heimavelli Jakobs. Fyrir síðustu umferðina er vitað að Sundsvall lýkur keppni í 3. sæti deildarinnar og Solna í 4. sæti.



