Fjölnisstelpur fengu Grindavík –b í heimsókn í síðasta leik í deildarkeppni 1. deildar kvenna í gærkvöldi. Fyrir leikinn var ljóst að Fjölnisstelpur yrðu efstar í deildinni.
Bæði liðin byrjuðu af krafti, en fljótlega tók Fjölnir forystuna og staðan eftir fyrsta leikhluta var 20 – 14 fyrir Fjölni.
Svipað var upp á teningnum í öðrum leikhluta. Grindavíkurstelpur börðust vel en Fjölnisstelpur bættu í og staðan í hálfleik var 38 – 23 Fjölni í vil.
Gréta María opnaði þriðja leikhluta með þriggja stiga körfu og liðin skiptust á stigum til að byrja með en þá skellti Fjölnir í lás og Grindavík fann fáar glufur á sterkri vörn heimastúlkna. Staðan eftir hann var 56 – 36.
Fjórði leikhluti var einungis formsatriði og Fjölnisstelpur héldu áfram sterkri vörn og uppskáru auðveldar körfur eftir því. Síðustu mínúturnar fengu svo ungu stelpurnar hjá Fjölni að spreyta sig og stóðu sig frábærlega og kláruðu dæmið. Leikurinn endaði 91 – 47.
Fölnisstelpur fengu svo deildarmeistarabikarinn afhendan við mikinn fögnuð og Hannes formaður var að sjálfsögðu mættur til að hengja pening utan um hálsinn á stelpunum.
Stigahæstar í jöfnu liði Fjölnis voru Bergþóra með 19 stig og Bergdís með 18 stig.
Hjá Grindavík var Lilja með 13 stig og reynsluboltinn Sirrý með 11 stig.
Nú þegar er orðið ljóst að Fjölnir og Þór Akureyri mætast í úrslitum um sæti í efstu deild kvenna en þetta er í fyrsta skipti sem úrslitakeppni er háð í 1. deild kvenna. Það lið sem vinnur tvo leiki fer upp. Ekki er alveg komið á hreint dagsetningar á þessum leikjum en það verður tilkynnt síðar.
Texti og myndir: Karl West Karlsson



