Reykjavíkurslagur ÍR og KR í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Iceland Express deild karla verður á boðstólunum eftir að ÍR-ingar unnu í kvöld frækinn sigur á Grindavík í síðustu umferð deildarinnar. Lokatölur í Seljaskóla voru 91-89 ÍR í vil sem áttu magnaðan lokasprett í leiknum en bæði lið höfðu að miklu að keppa í kvöld. Ef KR hefði tapað í Stykkishólmi og Grindavík unnið í Seljaskóla hefðu gulir orðið deildarmeistarar en sæti í úrslitakeppninni var að veði hjá ÍR.
Grindvíkingar léku í kvöld án Þorleifs Ólafssonar sem glímir við meiðsli en hann hefur þó verið í búning inn á milli í síðustu umferðum. Sveinbjörn Claessen hitaði upp með ÍR-ingum en var ekki í búning og eflaust margir ÍR-ingar sem vonast til að kappinn verði klár í slaginn gegn KR.
Robert Jarvis var atkvæðamestur í liði ÍR í kvöld með 29 stig og 7 stoðsendingar en Darrell Flake var grimmur á blokkinni hjá Grindavík í fyrri hálfleik en lauk leik með 22 stig og hafði hann sig nokkuð minna í frammi í þeim síðari.
Páll Axel Vilbergsson opnaði leikinn fyrir Grindavík með þriggja stiga körfu en heimamenn svöruðu að bragði með þrist frá Eiríki Önundarsyni. ÍR-ingar gerðu reyndar 9 fyrstu stigin sín í leiknum úr þriggja stiga körfum en Grindavík hafði samt yfirhöndina og leiddi snemma 14-19.
Nemanja Sovic jafnaði svo metin fyrir ÍR í 22-22 með þriggja stiga körfu en Grindvíkingar leiddu 25-27 eftir opinn og líflegan leikhluta þar sem varnarleikurinn var ekki fyrir hendi á báða bóga. Frammistaða Darrells Flake í fyrsta leikhluta var flott, hann skoraði nánast að vild í teignum og ÍR-ingar virtust ekki eiga nein svör við honum.
Heimamenn hertu róðurinn í upphafi annars leikhluta og hitnaði heldur undir ÍR-ingum þegar Davíð Þór Fritzson keyrði í átt að körfu Grindavíkur og grýtti boltanum upp í loftið í erfiðri stöðu eftir að brotið var á honum. Úr nánast ómögulegu skoti rataði boltinn í netið og Davíð fékk villu að auki og skoraði úr vítinu, skemmtileg og óvænt tilþrif í 12-4 áhlaupi ÍR í byrjun annars leikhluta.
Skömmu síðar lét háloftafuglinn Ólafur Ólafsson kveða að sér í liði Grindavíkur og tróð með tilþrifum og gestirnir byrjaðir að bíta frá sér eftir að ÍR höfðu verið grimmir í upphafi leikhlutans.
Vörn Grindavíkur small á lokaspretti fyrri hálfleiks og á síðustu tveimur mínútunum náðu Grindvíkingar 10-2 áhlaupi og leiddu því 48-53 í hálfleik. Nemanja Sovic og Robert Jarvis voru með 13 stig í hálfleik hjá ÍR en hjá Grindavík var Darrell Flake með 18 stig.
Grindvíkingar voru áfram í bílstjórasætinu í þriðja leikhluta og náðu upp 12 stiga forskoti með þriggja stiga körfu frá Guðlaugi Eyjólfssyni, 53-65. Staðan að loknum leikhlutanum var þó 62-69 eftir að ÍR-ingar náðu fínni lokarispu.
Rétt eins og í upphafi leiks skiptust liðin á sínum hvorum þristinum í upphafi fjórða leikhluta en Grindvíkingar voru svo fljótir að breyta muninum í 10 stig, 68-78. ÍR-ingar voru að gleyma skyttum Grindavíkur framan af leikhlutanum og það kann ekki góðri lukku að stýra.
Eftir þriggja mínútna leik í fjórða leikhluta stefndi allt í óefni hjá ÍR en þá byrjuðu lætin. ÍR tók 13-0 áhlaup og komust í 81-78 áður en Ólafur Ólafsson minnkaði muninn fyrir Grindavík í 81-80 með körfu í teignum. Magnað áhlaup hjá ÍR stýrt af Robert Jarvis sem Grindvíkingar réðu illa við á lokasprettinum.
Aftur var Ólafur Ólafsson á ferðinni fyrir Grindavík þegar hann minnkaði muninn í 86-84 og 1.15 mín. eftir af leiknum. ÍR-ingar héldu í langa sókn þar sem þeim var síðar dæmdur boltinn eftir að hann fór útaf í frákastabaráttu. Nemanja Sovic gerði þá risavaxna körfu fyrir ÍR er hann skoraði af harðfylgi í teignum og staðan 88-84 og 28 sekúndur eftir.
Grindvíkingar tóku leikhlé og Darrell Flake minnkaði muninn í 88-86 í næstu sókn þegar 13 sekúndur voru eftir. Gestirnir brutu á Jarvis sem hélt á línuna þar sem bæði lið voru komin með skotrétt. Jarvis stóðst álagið og setti niður bæði vítin og staðan 90-86. Reyndar setti Brenton Birmingham niður þrist þegar um sekúnda lifði leiks og lokatölur urðu því 91-89 eftir smávægilegan eltingaleik á vítalínunni á lokasprettinum.
Karaktersigur hjá ÍR-ingum sem eru nú komnir í úrslitakeppnina og mæta KR í fyrstu umferð. Grindavík mun hinsvegar mæta Snæfell í fyrstu umferð.
Eins og fyrr greinir var Jarvis með 29 stig og 7 stoðsendingar hjá ÍR en næstur honum var Nemanja Sovic með 22 stig. Hjá Grindavík var Darrell Flake með 22 stig og 10 fráköst en nokkuð dró af honum í síðari hálfleik. Guðlaugur Eyjólfsson kom næstur með 19 stig og þar af 15 úr þriggja stiga skotum en Guðlaugur sem og Ólafur Ólafsson komu sterkir af bekk Grindavíkur í kvöld, Ólafur með 18 stig.
Dómarar leiksins: Rögnvaldur Hreiðarsson og Jóhann Gunnar Guðmundsson



