spot_img
HomeFréttirNjarðvík jafnaði metin

Njarðvík jafnaði metin

 
Njarðvík jafnaði metin við FSu í innbyrðisviðureignum með 40 stiga sigri í Iðu á Selfossi í kvöld. Hvort lið hefur nú unnið tvo af fjórum leikjum liðanna í Iceland-Express deildinni.
 
Njarðvíkurliðið, sem ekki hefur leikið vel undanfarið, byrjaði illa í kvöld. FSu hafði frumkvæðið fyrstu mínúturnar og skoraði körfur í öllum regnbogans litum gegn arfaslakri vörn gestanna. Adam var þó ekki lengi í paradís, Njarðvík komst yfir 20-21 og eftir það varð ekki aftur snúið. Í hálfleik munaði einhverjum 20 stigum og í seinni hálfleik hertu gestirnir enn á varnarleiknum og skoruðu auðveldar körfur eftir byrjendamistök heimamanna í sókninni, misheppnaðar sendingar og vandræðagang. Greinilegt var að Siggi Ingimundar vildi vinna þennan leik stórt, enda veitir liði hans sjálfsagt ekki af hvatningu fyrir úrslitakeppnina. Það er þó spurning hvort þessi leikur veiti ekki falska öryggiskennd, því mótspyrnan var óneitanlega lítil. Ekki er ástæða til að rekja nánar gang leiksins en tala frekar um leikmennina. Gummi Jóns setti nokkra fallega þrista og skoraði alls 22 stig, eins og Bradford, sem þó beindi mestri athygli í að velta plastgómnum milla fingar sér og tína hann upp úr gólfinu. Hjörtur Hrafn var stigahæstur þeirra sunnanmanna með 24 stig og kláraði oft vel sín færi. Friðrik Stefánsson þurfti ekki að hafa mikið fyrir sínum 15 stigum og 16 fráköstum, enda enginn í hans þyngdarflokki meðal heimamanna. Aðrir náðu sér ekki á neitt sérstakt strik sóknarlega, en bæði Jói Ólafs og Rúnar Erlings spiluðu góða vörn á körflum.

 
Í liði FSu var Chris Caird allt í öllu, sem fyrr. Hann skoraði 30 stig og tók 9 fráköst, þrátt fyrir að hann hafi ekki fengið eitt né neitt gefins, nema kannski fyrstu 4 mínúturnar í leiknum. Það er með miklum ólíkindum hve mikið þessum tvítuga strák hefur farið fram þau þrjú ár sem hann hefur æft og spilað með körfuboltaakademíu FSu. Kanadamaðurinn Zimnickas skoraði 15 og Kjartan Kárason 13 stig. Baráttugleði Orra Jónssonar skilaði honum 5 fráköstum og verður að hrósa honum fyrir það, ekki hærri í loftinu en hann er.
Þar með lauk þátttöku FSu í efstu deild karla, í bili. Hve lengi er vandi um að spá en ef ný stjórn félagsins heldur vel á spöðunum ætti sá tími ekki að þurfa að vera langur því allar aðstæður til æfinga eru framúrskarandi, þær bestu á landinu.

Tölfræði leiksins

Gylfi Þorkelsson

Fréttir
- Auglýsing -