Níu tapleikir í röð í upphafi tímabils virtust aðeins herða Maríu Ben Erlingsdóttur og félaga í bandaríska háskólaliðinu UTPA. Liðið var að venjast nýjum þjálfara og þegar kynnin af honum urðu betri tók liðið miklum stakkaskiptum og fór að vinna hvern leikinn á fætur öðrum. Karfan.is ræddi við Maríu um veturinn en UTPA er fallið úr leik í háskólaboltanum eftir að liðið lá 72-56 gegn Utah Valley í undanúrslitum Great West deildarinnar.
,,Árið hjá okkur byrjaði frekar erfiðlega, við vorum að kynnast nýja þjálfaranum og læra inn á hvernig hann vildi að við spiluðum. Við urðum betri og betri með hverjum leik og allt var á uppleið. Hann vill hraðann bolta allan leikinn og spilar mikið svæðisvörn og ég var að spila sem þristur allt árið en ég hef leikið sem miðherji frá því að ég byrjaði að spila körfu,“ sagði María og bætti við að nýja staðan hefði komið sér skemmtilega á óvart.
,,Mér fannst ég læra mikið á því að spila sem þristur og ég póstaði ekki nema einu sinni upp að meðaltali í leik og var aðallega að skjóta fyrir utan,“ sagði María en þrátt fyrir brösuga byrjun á tímabilinu varð UTPA í 2. sæti í Great West Conference deildinni að lokinni venjulegri deildarkeppni.
,,Við komumst í undanúrslit í deildinni okkar og töpuðum þar á móti Utah Vally en þær stóðu síðar uppi sem sigurvegarar í Great West. Ef við hefðum unnið deildina hefðum við haft séns á því að komast í WNIT en þangað þarf að fá formlegt boð, það gerðist því miður ekki í ár. Tímabilið er því búið hjá okkur og allt í allt var þetta gott ár,“ sagði María sem undanfarin sumur hefur verið í landsliðsverkefnum en allt slíkt hefur að mestum hluta verið blásið af næstu tvö árin eins og þegar hefur verið skýrt frá á bæði Karfan.is og á heimasíðu KKÍ.
María lék 30 leiki með UTPA þetta tímabilið og var í byrjunarliðinu í 28 leikjum. Hún gerði 8,1 stig að meðaltali í leik og var þar með fjórði stigahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu. Þá var hún einnig með 2,7 fráköst að meðaltali í leik.



