,,Við byrjuðum mjög vel í kvöld og það leit út fyrir að við myndum valta yfir þær en svo kom Keflavík til baka. Það var fullmikil spenna í liðinu og vantaði meiri leikgleði en það kom í seinni hálfleik þegar við fórum að spila með hjartanu. Keflvíkingar komu ákveðnir til leiks og spiluðu stíft en það sem hjálpaði okkur kannski var að þær náðu lítið að beita sér í lokin í vörninni sökum villuvandræða,“ sagði Ágúst Björgvinsson þjálfari Hamars í samtali við Karfan.is.
Hamar tryggði sér í kvöld sæti í úrslitarimmu Iceland Express deildar kvenna eftir 93-81 sigur á Keflavík í oddaleik liðanna. Þetta er í fyrsta sinn í sögu Körfuknattleiksdeildar Hamars sem félagið á lið í lokaúrslitum meistaraflokks.
Nú er framundan úrslitarimma KR og Hamars þar sem KR hefur heimaleikjaréttinn. Ágúst telur þessi tvö lið vera sterkustu liðin í dag. ,,Ég tel okkur einnig vera með lið sem getur hampað þeim stóra en KR hafa verið stöðugari og spilað betur í vetur en oft og tíðum höfum við spilað eins og meistarar en stundum eins og lið sem á varla heima í úrslitakeppninni. Það sást kannski stundum í einvíginu gegn Keflavík. Það hafa verið sveiflur í liðinu sem útskýrist kannski af því að vera með nýtt lið, margir nýjir leikmenn en liðið er núna í sínu besta ásigkomulagi og það er klárlega stígandi í hópnum og útlitið fínt,“ sagði Ágúst og er augljóslega með það á hreinu út í hvað hans lið er að fara enda eldri en tvævetur í bransanum.
,,Varnarleikur hefur verið aðalsmerki KR og þær fara langt á því, KR hefur haldið liðum í lágum stigum og fengið að spila mjög fast en misjafnt hversu fast þær hafa fengið að spila. Það er óvissuþáttur í einvíginu hversu fast þær muni fá að spila en Keflavík lék t.d. mjög fast gegn okkur núna svo við ættum alveg að þekkja þetta. Við höfum líka leikið fimm sinnum gegn KR í vetur og í öll skiptin spiluðu þær fast á okkur og leggja allt sitt í varnarleikinn,“ sagði Ágúst og bætti við að styrkleiki Hamars væri sá að í vetur hefðu margir hans leikmanna farið yfir 20 stiga múrinn og því margir sem geti lagt töluvert af mörkum.



