Í kvöld ræðst hvort Haukar eða Þór Þorlákshöfn komist í úrslit 1. deildar karla og muni slást um laust sæti í úrvalsdeild karla á næstu leiktíð. Liðin eru hin mestu ólíkindatól og hafa unnið sinn hvorn útileikinn. Haukar eiga heimaleikjaréttinn í seríunni, fyrirgerðu honum í fyrsta leik, en náðu að knýja fram oddaleik með sigri í Þorlákshöfn.
Liðin mætast kl. 19:15 að Ásvöllum í kvöld og það lið sem hefur sigur í leiknum mun mæta Val eða Skallagrím í úrslitarimmunni um sæti í Iceland Express deildinni.
Þess má geta að Semaj Inge verður með Haukum í kvöld þrátt fyrir að hafa verið rekinn úr húsi í síðasta leik liðanna en hann fékk áminningu fyrir vikið frá aganefnd KKÍ og er því gjaldgengur í kvöld.
Leikur 1: Haukar 55-56 Þór Þorlákshöfn
Leikur 2: Þór Þorlákshöfn 73-89 Haukar
Leikur 3: ?
Þá eru tveir leikir í drengjaflokki. Kl. 19:40 mætast Fjölnir og Stjarnan í Dalhúsum og kl. 21:15 mætast KR og Breiðablik í DHL-Höllinni. Einn leikur er svo í unglingaflokki karla þegar Grindavík tekur á móti Njarðvík kl. 20:00 í Röstinni í Grindavík.



