Magnús Pálsson gekk til liðs við Þór Þorlákshöfn á miðju tímabilinu og í gærkvöldi lauk endurkomu hans í boltann þegar Þór tapaði í oddaleik gegn Haukum í 1. deild karla. Þórsarar eru því komnir í sumarfrí en Haukar fara í úrslit gegn Val eða Skallagrím. Karfan.is ræddi við Magnús eftir leik liðanna að Ásvöllum í gærkvöldi.
,,Það mætti segja að tankurinn hefði tæmst á endasprettinum, lappirnar voru þreyttar og skotin ekki að detta. Okkur vantaði kannski aðeins meiri breidd í liðið og þá hefðum við tekið þetta,“ sagði Magnús en Þórsarar gerðu heiðarlega tilraun til þess að jafna metin í fjórða leikhluta eftir að hafa lent tæpum tuttugu stigum undir á kafla í þriðja leikhluta.
,,Við höfum verið sveiflukenndir í vetur og það hefði verið betra að ná því að spila á fullu í 40 mínútur en ekki einn og einn hálfleik. Í oddaleiknum vorum við bara þreyttir og skotin voru ekki að detta þannig að Haukar voru bara betri en við,“ sagði Magnús en hvað kom þessari endurfæðingu hans á parketinu af stað?
,,Ég veit það ekki, kannski að ánægjan við að spila var komin aftur og svo er fínt að vera í Þorlákshöfn,“ sagði Magnús sposkur sem hefur verið á mála hjá félaginu síðan í nóvember. ,,Ég þekki þetta ekki nægilega vel þarna en mér sýnist vera nóg af efnilegum strákum þarna,“ sagði Magnús og kveið því ekki framhaldinu fyrir hönd Þorlákshafnar.
Aðspurður um framhaldið og hvort hans gamla félag væri ekki alltaf að tosa í hann sagði Magnús: ,,Framhaldið er óráðið og það er alltaf eitthvað verið að tosa í mann, ég hugsa bara málið í sumar og sé til hvað ég geri næsta vetur,“ sagði Magnús en hvernig verður framhaldið, hverjir fara í úrvalsdeild?
,,Ég tel að Haukarnir taki þetta, sé Hauka og Skallagrím mætast í úrslitum og Haukarnir vinni 2-0.“



