spot_img
HomeFréttirPavel og Lewis leiddu KR til sigurs

Pavel og Lewis leiddu KR til sigurs

 
Morgan Lewis og Pavel Ermolinskij áttu flottan leik með KR í kvöld sem tók 1-0 forystu í einvíginu gegn ÍR í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Iceland Express deild karla. Lewis ögraði þyngdarlögmálinu reglulega og Pavel lét strákana á statt-tölvunni hafa fyrir hlutunum. Robert Jarvis snögghitnaði í síðari hálfleik hjá ÍR og raðaði niður körfum en þá voru KR-ingar einfaldlega komnir of langt frá. KR getur því tryggt sér sæti í undanúrslitum á sunnudag takist þeim að leggja ÍR í Hellinum. 
Fyrsti leikhluti var fjörugur og mikið skorað en fyrstur á blað var bakvörðurinn margreyndi Eiríkur Önundarson er hann kom ÍR í 0-3 með þrist að hætti hússins. ÍR komst í 2-7 áður en heimamenn ákváðu að taka þátt í leiknum en það tók liðin tæpar 2 mínútur að koma leðrinu í gegnum netið.
 
KR seig hægt framúr í fyrsta leikhluta en Nemanja Sovic jafnaði metin í 20-20 með tveimur þristum í jafn mörgum sóknum. Heimamenn áttu þó lokaorðið þar sem Morgan Lewis braut í gegn og lagði boltann í körfuna um leið og flautan gall. Staðan 24-22 fyrir KR eftir fyrstu 10 mínúturnar.
 
Þegar þrjár mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta skoruðu tveir menn sömu körfuna en þá braust Steinar Kaldal í gegn en brenndi af sniðskotinu. Háloftabomburnar Morgan Lewis og Jón Orri Kristjánsson komu þá aðvífandi og tróðu saman boltanum í körfuna. Skemmtileg tilþrif en það væri gaman að sjá ritara leiksins rökstyðja hvor leikmaðurinn fengi stigin skráð á sig.
 
Davíð Þór Fritzson tók góða 5 stiga rispu fyrir ÍR í tveimur sóknum, fyrst ,,turn a round fade away jumper“ og svo þristur og staðan 32-31. Næstu tvær mínúturnar eða svo gerðu KR-ingar 14 stig gegn 5 frá ÍR og staðan orðin 46-36 eftir þriggja stiga körfu frá Brynjari Þór, besta leikmanni síðari hluta deildarinnar.
 
KR leiddi svo í hálfleik 52-42 þar sem Morgan Lewis var kominn með 19 stig hjá KR en Nemanja Sovic var með 14 stig hjá ÍR.
 
Miðherjinn Fannar Ólafsson skoraði sex fyrstu stig KR í þriðja leikhluta og snöggtum var munurinn orðinn 17 stig, 67-50 eftir þriggja stiga körfu frá Morgan Lewis. Lokastaðan eftir flottan þriðja leikhluta hjá KR var 77-58 og ljóst í hvað stefndi. KR-ingar léku í kvöld án Tommy Johnson og Skarphéðins Ingasonar en þeir sem komu af bekknum skiluðu sínu vel enda sex leikmenn KR með 10 stig eða meira í kvöld. Sjö komust á blað og sá sjöundi var Finnur Magnússon með 8 stig.
 
Robert Jarvis gerði hvað hann gat fyrir ÍR á loksprettinum og setti niður nokkra þrista en hann var með 5 í 17 tilraunum í kvöld. ÍR náði að minnka muninn í 83-71 en KR-ingar voru komnir of langt frá og kláruðu dæmið 98-81.
 
Morgan Lewis gladdi augað oft og mörgum sinnum og lauk leik með 30 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar en Pavel Ermolinskij stjórnaði sóknarleik KR af harðfylgi, hann splæsti í magnaða þrennu með 10 stig, 16 stoðsendingar og 15 fráköst.
 
Hjá ÍR var Robert Jarvis með 29 stig þar sem hann gerði 20 stig í síðari hálfleik. Þá var hann einnig með 5 stig og 5 fráköst. Næstur Jarvis var Nemanja Sovic með 20 stig og 9 fráköst.
 
Einn þáttur leiksins hafði afgerandi áhrif í kvöld og það voru fráköstin. KR rúllaði upp frákastabaráttunni með 49 fráköst gegn 28 fráköstum hjá ÍR. Ef ÍR ætlar ekki í sumarfrí á sunnudag verða þeir að muna eftir því að stíga út.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -