Keflvíkingar tóku forystu í einvígi sínu gegn Tindastól með 19 stiga sigri, 94:75 í Toyotahöllinni í kvöld. Gestirnir spiluðu vel í fyrri hálfleik og héldu í við heimamenn, en í þeim seinni virtist bensínið að þrotum og heimamenn sigu hægt en örugglega í höfn með sigurinn.
Það voru gestirnir úr Skagafirðinu sem mættu sprækir til leiks og voru komnir í stöðuna 3:9 eftir 3 mínútna leik. Athygli vakti að Svavar Birgisson var ekki í byrjunarliði Tindstóls að þessu sinni. Tindastólsmenn voru að spila nokkuð skynsamt , létu ekki Keflvíkinga keyra upp tempó leiksins og héldu sínum hraða. Keflvíkingar náðu hinsvegar góðum spretti undir lok fjórðungsins og komust yfir og leiddu með 3 stigum , 25:22.
Miðherji þeirra Tindastólsmanna Visockis meiddist fljótlega í öðrum fjórðung og vissulega högg í þeirra liðshóp þar sem kappinn hafði staðið sig vel fram að þessu. Þetta virtist þó ekki hafa mikil áhrif á leik þeirra þar sem þeir héldu í við Keflvíkinga með góðri baráttu. Varnarleikur Keflvíkinga var á hælunum og gestirnir að fá galopin skot hvað eftir annað. Keflvíkingar voru hinsvegar sterkari aðilinn í leiknum en svo sannarlega voru Tindastólsmenn mættir í Keflavík, ólíkt síðustu heimsókn þeirra þangað. Aðeins 3 stig munaði á liðunum í hálfleik, 46:43.
Keflvíkingar gerðu fyrstu 6 stig seinni hálfleiks og voru komnir í 9 stiga forystu. Donatas Visockis kom loksins aftur inná fyrir Tindastól þegar 4 mínútur voru liðnar inní seinni hálfleik. Vissulega styrkur fyrir gestina þar sem hann var að binda varnarleik gestanna saman í teignum ásamt því að auka ógnina í teignum sóknarlega. Cedric Isom hélt lífi í gestunum með ótrúlegum körfum og hafði kappinn gert 22 stig strax í þriðja fjórðung. Það var hinsvegar Hörður Axel sem lokaði fjórðungnum með troðslu og staðan 74:66 heimamenn í vil.
Heimamenn hófu síðasta fjórðunginn sterkt og voru eftir 3 mínútna leik komnir í stöðuna 81:68. Sú barátta og leikskynsemi sem hafði einkennt leik gestanna í fyrri hálfleik var algerlega horfinn og ekki laust við að þeir væru einfaldlega bara sáttir með sitt í fyrri hálfleik. Þó var Cedric Isom með lífsmarki og áttu heimamenn í mesta basil með að stoppa kappann. Heimamenn voru hinsvegar sterkari þegar líða tók á og enduðu leikinn með 19 stiga sigri, 94:75. Leikurinn í heild sinni kannski lítið fyrir augað og í raun svona eins og bíómynd sem maður var að sjá í þriðja skiptið. Hugsanlega má búast við betri leik milli þessara liða á Sauðárkróki á sunnudag þegar liðin mætast í annað sinn.



