Morgan Lewis fór mikinn í liði KR í kvöld og sýndi loks á sér sóknarhliðar sem hafa verið í nokkrum dvala síðan hann kom til landsins. Í fjarveru Tommy Johnsons kom meira í hlut Lewis í kvöld en áður og þakkaði hann pent fyrir sig með 30 stigum, 9 fráköstum og 4 stoðsendingum í 98-81 sigri KR gegn ÍR í fyrstu viðureign liðanna í 8-liða úrslitum.
,,Ég geri mér grein fyrir því að ef liðin á Íslandi voru að skoða leiki með mér þá hafi þau ekki talið mig vera mikla ógnun í sókninni þar sem ég hef ekki verið að setja niður skotin mín en Páll þjálfari sagði mér fyrir leikinn að án Tommy yrði ég að stíga upp og ógna í sókninni,“ sagði Morgan Lewis í samtali við Karfan.is eftir leikinn í kvöld.
,,Til allrar hamingju höfum við leikstjórnanda eins og Pavel sem getur fundið hvern sem er á vellinum og ég hagnaðist á því í kvöld,“ sagði Morgan en var lykilorðið í leik KR í kvöld þolinmæði?
,,Já, alveg pottþétt. Við lékum vel og við vissum fyrir leik að við ættum nokkra ,,mis-match“ á vellinum. Þá stjórnuðum við hraðanum í leiknum, hægðum á þegar við þurftum og keyrðum upp sömuleiðis þegar svo bar undir. Þolinmæði skilaði okkur líka sigrinum,“ sagði Lewis sem sannaði í kvöld að menn þurfa líka að hafa gætur á honum í vörninni, er hann þ.a.l. meira en bara varnarmaður?
,,Ég hef það orð á mér að vera meiri varnarmaður en sóknarmaður en mér finnst gaman að hlaupa völlinn og ég er í fínu formi. Skotin mín hafa verið fremur slök undanfarið en það kom í kvöld og ég tel mig hafa sýnt liðunum að þau megi ekki bakka mikið af mér,“ sagði Lewis en hefur hann áhyggjur af framhaldinu þar sem KR var að rúlla á fáum leikmönnum í kvöld. Léku án Johnsons og Skarphéðins og gæti það tekið sinn toll í úthaldinu?
,,Við höfum hæfileikana, þroskann og reynsluna til þess að fara alla leið. Ég kom á miðju tímabili inn í KR-liðið og féll bara nokkuð vel inn þar sem ég reyni að skila mínu hlutverki og nú þegar við fáum Tommy til baka mun það auka á fjölbreytnina í sóknarleik okkar. Það mun skipta sköpum að fá hann aftur enda reyndur í þessari deild og því mikilvægt að fá hann aftur fyrir næsta leik,“ sagði sóknarmaðurinn Lewis.



