KR jarðaði ÍR í frákastabaráttunni í kvöld þegar liðin mættust í sínum fyrsta leik í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla. Lokatölur voru 98-81 KR í vil sem tóku 49 fráköst gegn 28 hjá ÍR.
,,Þetta féll í þriðja leikhluta, 10 stiga munur í hálfleik og við fórum yfir þetta litla einfalda sem við þurftum að gera og höfðum talað um síðustu daga. Við þurftum að vera fljótir aftur og ekki gefa þeim auðveld fráköst sem skapaði hraðaupphlaupin þeirra,“ sagði Gunnar Sverrisson þjálfari ÍR í samtali við Karfan.is eftir leik.
,,Fráköstin hafa verið örlítið vandamál hjá okkur undanfarið en við höfum samt unnið leiki en ég hef nú trú á því að mínir stóru strákar og bakverðirnir líka stigi betur út á sunnudaginn og taki fleiri fráköst,“ sagði Gunnar sem stýrir sínum mönnum á sunnudag í Hellinum í Breiðholti þegar ÍR og KR mætast í sínum öðrum leik.
,,Við ætlum að enda þann leik þannig að við þurfum að hugsa um fimmtudag í næstu viku og koma hingað í DHL-Höllina aftur. Það er alveg pottþétt,“ sagði Gunnar en hvað þurfa ÍR-ingar helst að laga fyrir sunnudaginn?
,,KR-ingar eru eldsnöggir fram svo við þurfum að vera fljótari aftur svo þeir fái ekki svona auðveldar körfur,“ sagði Gunnar en undirbjó ÍR sig eitthvað öðruvísi fyrir leikinn í kvöld vitandi að Tommy Johnson tæki út leikbann í herbúðum KR?
,,Nei nei, það skiptir engu máli. Menn eru alltaf að tala um að það vanti hina og þessa en ég hef ekki nefnt svoleiðis einu orði en get samt dregið fram langan lista. Þetta er bara hluti af íþróttum og annað hvort eru menn með eða ekki. Þetta er næstum því soldið móðgandi fyrir hina sem skipa liðið en þetta skiptir mig engu máli,“ sagði Gunnar en hvernig fer þetta svo á sunnudag?
,,Við skulum bara hafa þetta allt öðruvísi en í kvöld.“



