spot_img
HomeFréttirYngvi Gunnlaugsson: Erum ekki bara one man team

Yngvi Gunnlaugsson: Erum ekki bara one man team

 
Yngvi Gunnlaugsson mætir sínu gamla liði, Haukum, í úrslitaeinvígi 1. deildarinnar um sæti í Iceland Express deildinni að ári eftir að Valsmenn sigruðu Skallagrímsmenn í Vodafonhöllinni í kvöld. Yngvi var að vonum ánægður með leik sinna manna í kvöld.
,,Ég er auðvitað ánægður því fyrir tímabilið þá leit þetta ekkert alltof vel út með hópinn hvort við værum með lið. Þessir strákar eru bara allir hetjur, koma héðan og þaðan og þeir sýna það að þeir eru með stórt Valshjarta.“
 
Valsmenn þurftu að hafa mikið fyrir sigrinum í kvöld og gestirnir komust yfir undir lok þriðja leikhluta en Valsmenn komu til baka og unnu að lokum 7 stiga sigur.
 
,,Leikurinn í Borganesi, við skulum ekkert taka af Borgnesingum, það var örugglega þeirra besti leikur í vetur, án efa. Það var bara wake-up call fyrir okkur. Við löguðum aðeins vörnina, við þurftum að hafa betri gætur á Tota, við höldum honum í 9 stigum í þrjá leikhluta og 14 alls sem segir okkur að okkar plan gekk upp. Og að sama skapi skora bara 5 leikmenn aftur hjá þeim.”
 
Valsmönnum tókst að loka á marga leikmenn Skallagrímsliðsins fyrir utan þeirra máttarstólpa í fyrsta leik seríunnar og núna í þriðja leiknum en annað var uppá teningnum í Borganesi. Það er mikill munur frá því í seinasta leik?
,,Heldur betur, Tota var að skjóta svo háa prósentu svo við gátum alveg sætt okkur við að hann væri með 30 stig ef hann færi úr 70 yfir í 40 prósent. Það var auðvitað munurinn. Við ætluðum að koma þeim á óvart, nýttum daginn vel í gær á æfingu og settum inn svæði sem við notuðum og höfum ekkert gert í vetur. Það virkaði vel í dag”.
 
Næsta verkefni Valsmanna er að takast á við Hauka um sæti Iceland Express deildinni að ári. Hvernig lýst þér á Hauka í úrslitunum?
,,Við erum án efa underdogs. Styttra síðan við spiluðum og þeir bara búnir að tapa einum leik síðan þeir fengu Inge inn. Þetta eru liðin í 2. og 3. sæti svo við skulum bara segja að þetta séu tvö af þremur bestu liðunum í deildinni. Það er auðvitað lítið Haukahjarta í manni og gaman að annaðhvort Haukar eða Valur er að fara upp”.
 
Valsmenn takast því á við það verðuga verkefni að stöðva Semaj Inge sem hefur komið virkilega sterkur inn í lið Hauka seinni hluta tímabils.
,,Þeir eru bara með svo marga góða leikmenn en það er að sama skapi, að horfa á töfluna hjá okkur , hún er eins og jólatré, það eru allir að skora. Kaninn er með 12 stig, þegar þetta leit illa út hjá okkur þá kemur Siddi með alveg ótrúlega syrpu fyrir okkur, stelur boltanum, þristur, layup, alveg bara frábært. Höddi stórkostlegur, sérstaklega sóknarlega. Við erum ekki one man team þó að Byron Davis hafi oft dregið vagninn”.
 
Viðtal: Gísli Ólafsson
Ljósmynd/Tomasz Kolodziejski
Fréttir
- Auglýsing -