Kristrún Sigurjónsdóttir lék allra best í kvöld þegar Hamar tók 1-0 forystu í úrslitaeinvíginu gegn KR í Iceland Express deild kvenna. Kristrún gerði 27 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 4 fráköst í 79-92 sigri Hamars í Vesturbænum. Eftir skemmtilegan fyrri hálfleik tók leikurinn netta hægri beygju og Hamar var við stýrið. Hamar vann þriðja leikhluta 9-20 og lögðu þar með grunninn að sigrinum. Unnur Tara Jónsdóttir gerði 20 stig í liði KR og tók 5 fráköst en varnarleikur þeirra röndóttu var fjarri því sá sami og þær hafa sýnt af sér þessa leiktíðina. Liðin mætast aftur á mánudag og þá fer leikurinn fram í Hveragerði.
Margrét Kara Sturludóttir gerði fimm fyrstu stig KR í leiknum og Vesturbæingar pressuðu á gesti sína. Varnarafbrigði sem KR hefur lítið sem ekkert beitt í vetur. Stöku bolti vannst upp úr þessu á fyrstu mínútunum en gestirnir urðu þó klókari með hverri mínútu. Eftir tæplega sex mínútna leik hélt Julia Demirer á bekkinn hjá Hamri og var hún ekki búin að skora. Kristrún sá um þann þáttinn.
Unnur Tara fann sig vel í upphafi leiks og kom KR í 15-11 en Hamarskonur jöfnuðu metin í 17-17. Jenny Finora kom lífleg af bekknum hjá KR og á um tíu sekúndna kafla setti hún niður tvo þrista og breytti stöðunni í 26-19. Gestirnir klóruðu í bakkann og staðan að loknum fyrsta leikhluta 29-26. Mikið skorað og hart barist þar sem Helga Einarsdóttir nældi sér í þrjár villur í liði KR í fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta höfðu KR-ingar frumkvæðið fyrstu mínúturnar en Sigrún Ámundadóttir gerði stóru körfurnar fyrir Hamar til að færa þær upp að hlið KR. Fyrst jafnaði hún metin í 39-39 með þriggja stiga körfu og síðar í 44-44 með körfu í teignum. Svo fór að Hamar náði forystunni og leiddi 49-51 í hálfleik þar sem Kristrún Sigurjónsdóttir var komin með 20 stig í liði Hamars en Unnur Tara 15 í liði KR.
Pressan sem KR beitti í fyrri hálfleik gekk þokkalega á vallarhelmingi Hamars. Um leið og gestirnir komu boltanum á kantinn var það oftar en ekki Kristrún Sigurjónsdóttir sem þræddi sig í gegnum miðherja KR og skoraði eða fór á línuna eftir villu.
Í síðari hálfleik voru bæði lið komin í villuvandræði og vitað að ekki myndi líða á löngu áður en einhver myndi kveðja þennan leik. Hamar gerði fyrstu sex stigin í þriðja leikhluta og staðan 49-57. Hildur Sigurðardóttir kom KR á blað með körfu og villu að auki og staðan 52-57 en þá skildu leiðir.
Kristrún Sigurjónsdóttir dreif Hamarskonur áfram og vörn gestanna var þétt. Signý Hermannsdóttir fékk sína fjórðu villu í liði KR og hélt af velli og Hamarskonur áttu greiða leið í gegnum teig KR í kjölfarði. Svo fór að Hamar vann þriðja leikhluta 9-20 og leiddu 58-71 fyrir fjórða leikhluta.
Gestirnir sýndu enga miskunn og Fanney Lind Guðmundsdóttir jók muninn í 16 stig með þriggja stiga körfu í upphafi fjórða leikhluta. Þegar tæpar sjö mínútur voru til leiksloka fékk Signý Hermannsdóttir sína fimmtu villu að því er virtist fyrir litlar sakir og voru KR-ingar ekki par sáttir við þessa niðurstöðu.
KR-ingar beittu svæðisvörn sem gekk þolanlega framan af en Hamarkonur voru komnar á bragðið og gáfu ekkert eftir. Svo fór að Hamar hafði 79-92 sigur í leiknum og urðu Hvergerðingar þar með fyrstir til þess að gera 90 stig eða meira í DHL-Höllinni þennan veturinn.
Þetta var fjórði ósigur KR á leiktíðinni en allir hafa þeir komið á heimavelli! Liðin mætast næst í Hveragerði á mánudag en þrátt fyrir að Hamar hafi leikið KR grátt nokkrum sinnum í vetur hefur þeim enn ekki tekist að vinna deildarmeistarana í Hveragerði.
Besti leikmaður vallarins í kvöld var Kristrún Sigurjónsdóttir með 27 stig, 7 stoðsendingar og 4 fráköst. Næst henni í liði Hamars var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir með 18 stig og 9 fráköst. Guðbjörg Sverrisdóttir kom spræk af bekknum hjá Hamri og gerði 14 stig og Julia Demirer var með 16 stig og 13 fráköst.
Unnur Tara Jónsdóttir var með mesta lífsmarkinu í liði KR í kvöld. Unnur gerði 20 stig og tók 5 fráköst. Jenny Finora gerði 16 stig í leiknum og þar af 12 í þriggja stiga skotum en fjögur af þrettán skotum Finora utan við línuna rötuðu rétta leið í kvöld. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir gerði 14 stig og var jafnan með gætur á Koren Schram sem komst ekki mikið í takt við leikinn og skoraði 2 stig fyrir Hamar í kvöld.



