Þegar tvær mínútur voru eftir þá var staðan 91-90 fyrir Grindavík en stuttu seinna skorar Martins Berkins villa karfa góð fyrir Snæfell og setur vítið ofan í og staðan orðin 91-93 fyrir Snæfell og 50 sek eftir. Grindavík fer í sókn og Brenton klikkar úr 2ja stiga skoti en Ómar nær frákastinu með mikilli baráttu og skorar villa – karfa góð og setur vítið einnig ofan í og staðan þá orðin 94-93 fyrir Grindavík og 38 sek eftir af leiknum. Sean keyrir upp völlinn og stillir sér upp fyrir utan 3ja, Hlynur Bærings gefur honum gott skrín og Ómar þarf að hjálpa á Sean og Hlynur laumar sér því einn undir körfuna, engin hjálparvörn til staðar og Sean gaf á Hlyn þar sem hann var einn og óvaldaður inn í teig og skoraði auðveldlega og staðan því orðin 94-95 fyrir Snæfell og 22 sek eftir. Grindavík stillir upp í seinustu sókn leiksins sem endar með því að Guðlaugur fær ágætt þriggja stiga skot sem klikkar og Jón Ólafur nær varnarfrákastinu fyrir Snæfell en Ómar brýtur um leið. 1,2 sek. eftir og Snæfell á innkast við miðju. Grindvíkingar neita að gefast upp og pressa Snæfell. Hlynur gefur ágætis sendingu á Sean sem einhvern veginn missir boltann strax út af. Grindvíkingar fá því innkast á miðju þegar 1 sek er eftir og þeir einu stigi undir. Friðrik tekur leikhlé og stillir upp kerfi sem augljóslega gekk ekki upp en Páll Axel fékk boltann og tekur erfitt skot sem geigar og Snæfellingar fagna innilega 1 stigs sigri.
Grindavík 0-1 Snæfell: Sterkur endasprettur gestanna
Leikur Grindavíkur og Snæfells í Röstinni í Grindavík sýndi allt það besta sem úrslitakeppnin í körfubolta hefur upp á að bjóða. Tvö frábær lið sem bæði ætluðu sér sigur og skemmtileg tilþrif hjá báðum liðum.
Leikmenn virkuðu frekar stressaðir í upphafi leiks og gekk mjög illa hjá báðum liðum að skora og eftir tvær og hálfa mínútu var staðan 4-2 fyrir Grindavík. Leikmenn Snæfells fóru þó að finna taktinn og skiptu bróðurlega með sér stigunum á meðan Brenton Birmingham sá um að halda Grindavík inn í leiknum og lék oft illa á Emil Þór Jóhannsson sem var að dekka hann í upphafi leiks. Brenton skoraði 9 stig af þessum 15 stigum Grindavíkur í leikhlutanum. Staðan eftir 1. leikhluta var 15-23 fyrir Snæfell sem voru að spila einstaklega vel meðan Grindvíkingar virkuðu ekki alveg tilbúnir í verkefnið.
Grindvíkingar byrjuðu að pressa í upphafi 2.leikhluta og áttu Snæfellingar í smá erfiðleikum í upphafi með pressuna þar sem Ólafur Ólafsson og Arnar Freyr Jónsson voru duglegir fremst í pressunni og Grindvíkingar stálu nokkrum boltum og Guðlaugur Eyjólfsson skoraði 8 stig á stuttum tíma og þegar leikhlutinn var hálfnaður var staðan orðin 32-33 fyrir Snæfell sem áttu í miklum vandræðum og töpuðu boltanum klaufalega trekk í trekk. Næstu mínútur voru æsispennandi þar sem liðin skiptust á að skora, Björn Steinar Brynjólfsson kom sterkur inn af bekknum hjá Grindavík á meðan stigaskorið dreifðist mjög vel hjá Snæfellingum og Emil Þór Jóhannsson skoraði fallegan þrist en Hlynur Bæringsson og Sigurður Þorvaldsson keyrðu Snæfellsliðið áfram. Grindvíkingar lögðu ofuráherslu á að hægja á Sean Burton í liði Snæfellinga og tókst það mjög vel hjá þeim Arnari Frey og Þorleifi Ólafssyni en Sean var aðeins með 3 stig í hálfleik. En hann var duglegur að spila upp á aðra leikmenn í Snæfell og dreifðist stigaskorið mjög hjá Snæfell. Staðan í hálfleik var 42-40 fyrir Grindavík og spennandi seinni hálfleikur framundan.
Í seinni hálfleik hélt spennan áfram þar sem liðin skiptust á að skora en um miðjan 3ja leikhluta var eins og Grindvíkingar hefðu fundið aukakraft og breyttu þeir stöðunni úr 57-57 í 71-59 á 3ja mínútu kafla. Guðlaugur Eyjólfsson skoraði svo magnaða þriggja stiga körfu í lok leikhlutans og öll stemning með Grindavíkurliðinu. Pálmi Freyr Sigurgeirsson var duglegur í liði Snæfellinga á þessum tíma og kom sér oft á vítalínuna og sá til þess að munurinn var aðeins 12 stig í lok 3ja leikhluta 76-64.
Arnar Freyr hóf 4ja leikhluta á svipuðum nótum og Guðlaugur hafði endað þann 3ja, með því að skora villa – karfa góð og setja vítið ofan í og munurinn orðinn 15 stig og leit út fyrir að Grindvíkingar ætluðu að gera út um leikinn. En þá sögðu Snæfellingar hingað og ekki lengra. Sean ásamt Hlyn Bærings leiddu liðið áfram og áður en Grindvíkingar vissu af var Snæfell komið með eins stigs forustu 84-85 er Hlynur Bærings kom liðinu yfir í fyrsta sinn í langan tíma. Brenton svaraði um hæl með 3ja stiga körfu og staðan orðin 87-85 og svona hélt leikurinn áfram til loka leiksins, liðin skiptust á að skora. Brenton hélt áfram að leiða Grindavíkurliðið áfram og ekki bara í sókn heldur blokkaði hann tvisvar leikmenn Snæfells þegar þeir voru í þann mun að skora og auka bilið milli liðanna.
Hlynur Bæringsson átti frábæran leik hjá Snæfell með 24 stig og 15 fráköst, Sean Burton skoraði 18 stig og var með 9 stoðsendingar og steig upp í 4ja leikhluta og hjálpaði Snæfell að klára leikinn. Auk þess átti Sigurður Þorvaldsson fínan leik með 18 stig.
Hjá Grindavík átti Brenton Birmingham frábæran leik með 26 stig og 5 stoðsendingar en hitti aðeins úr 1 af 5 vítum. Ómar Örn Sævarsson barðist líka af miklum krafti og var með 11 stig og 12 fráköst og Arnar Freyr Jónsson stjórnaði liðinu vel og spilaði frábæra vörn á Sean Burton en Arnar var með 9 stig og 8 stoðsendingar.
Frábær leikur milli tveggja góðra liða og það verður spennandi að fylgjast með leiknum í Hólminum næsta mánudag.
Umfjöllun: Bryndís Gunnlaugsdóttir
Fréttir



